Efnilegir 9 ára ökumenn

Það ríkti mikið fjör á Ing­ólf­s­torgi í dag þegar ökuþórar og áhorf­end­ur úr fjór­um fé­lags­miðstöðvum komu sam­an og kepptu sín á milli í ár­legu kapp­akst­urs­bíl­arallýi frí­stunda­heim­ila Frosta­skjóls og ÍTR í Reykja­vík. Alls voru um 400 börn sam­an­kom­in á torg­inu, og stemmn­ing­in var í takt við veðrið: Gríðarlega góð. Keppn­in var æsispenn­andi og oft mjótt á mun­um enda kepp­end­ur og áhorf­end­ur full­ir af metnaði fyr­ir hönd sinn­ar fé­lags­miðstöðvar. Þátt­tak­end­ur í ár komu úr Sel­inu við Mela­skóla, Skýja­borg­um við Vest­ur­bæj­ar­skóla, Undralandi við Granda­skóla og Frostheim­um við Frosta­skjól.

Börn­in hafa í vor eytt mikl­um tíma og natni við smíðar, hönn­un og skreyt­ing­ar á bíl­un­um, með hjálp frá starfs­mönn­um. Ekki má held­ur gleyma stíf­um æf­ing­um, því eng­inn mæt­ir óund­ir­bú­inn í bíl­arallý.  All­ir standa uppi sem sig­ur­veg­ar­ar að lok­um og held­ur hvert frí­stunda­heim­ili heim með far­and­bik­ar fyr­ir einn af eft­ir­far­andi þátt­um; hraðskreiðasti bíll­inn; flott­asti bíll­inn; besta liðsheild­in, snör­ustu starfs­menn­irn­ir, klaka­meist­ar­arn­ir og frostrós­irn­ar.   

Svo­lítið stress­andi

Meðal full­trúa Frostheima í keppn­inni voru hinar bröttu Soffía Svan­hvít Árna­dótt­ir, Álf­dís Freyja Hans­dótt­ir og Þor­björg Edda Valdi­mars­dótt­ir, en þær eru all­ar 9 ára. Blaðamaður náði tali af þeim eft­ir að þær höfðu att kappi við full­orðna starfs­menn fé­lags­miðstöðvar­inn­ar og haft bet­ur. „Þetta var gam­an en líka svo­lítið stress­andi,“ sögðu stelp­urn­ar sig­ur­reif­ar.

Aðspurð hvort hún hafi byggt bíl­inn sjálf seg­ir Soffía Svan­hvít svo ekki vera, „það var nú reynd­ar starfsmaður sem setti hann sam­an. En ég keyrði.“ Stelp­urn­ar segj­ast hafa æft sig tals­vert fyr­ir keppn­ina, „við æfðum okk­ur hell­ing, í al­veg 3 daga,“ seg­ir Þor­björg Edda. 

Álf­dís Freyja gætti þess að vera með hjálm, enda seg­ir hún það bráðnauðsyn­legt í keppni sem þess­ari, „maður get­ur dottið úr vagn­in­um og meitt sig mikið.“

Þær voru all­ar sam­mála um að stelp­ur væru al­veg jafn góðir kapp­akst­urs­bíl­stjór­ar og strák­ar, „við erum al­veg jafn­góðar og þeir,“ sagði Soffía Svan­hvít að lok­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert