Gul slikja umlykur Arnarhól þessa dagana, en hóllinn hefur ekki verið sleginn síðan á síðasta ári og heiðgulir túnfíflar blómstra þar sem aldrei fyrr. „Sláttur er að hefjast, fíflarnir eru þó snöggir af stað og ná að spretta fram á vorin,“ segir Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri hjá Reykjavíkurborg.
Ásjóna hólsins mun þó fljótt breytast, „Arnarhóllinn er ofarlega í forgangsröðinni og verður sleginn á allra næstu dögum,“ segir Þórólfur. Ljóst er að það er mikið verk að slá hólinn, „við erum með gríðarstóra sláttuvél sem vinnur verkið á parti úr degi. Sem er kannski synd, því þeir eru fallegir.“
Spurður hvort illgresi sé almennt plága í borginni segir Þórólfur að það sé misjafnt. „Á rigningarsumrum grasserar illgresið þannig að ekki verður við neitt ráðið, en þurru sumrin hjálpa okkur.“
Borgarbúar sem vilja upplifa þetta einkennismerki borgarinnar í gulum búningi ættu því að grípa tækifærið áður en það verður um seinan.