Tæplega þrítug kona situr í gæsluvarðhaldi eftir að hún reyndi að smygla nær hálfu kílói af fíkniefnum í leggöngum sínum til landsins. Konan, sem er af erlendu bergi brotin, var að koma frá Kaupmannahöfn og vaknaði grunur um að hún væri með fíkniefni í fórum sínum við hefðbundið eftirlit tollgæslu.
Þegar farið var að ræða nánar við hana „missti“ hún á fimmta hundrað grömm af ecstacy-dufti niður úr leggöngum sínum, líkt og það er orðað í tilkynningu frá lögreglunni.
Lögreglan á Suðurnesjum var þá kvödd í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem konan hafði misst efnin, og var hún handtekin og færð á lögreglustöð. Hún var skömmu síðar úrskurðuð í gæsluvarðhald. Rannsókn lögreglu er á lokastigi.