Forstjóri Barnaverndarstofu (BVS) segir nauðsynlegt að ákvæði verði sett í barnaverndarlög sem veiti ríkari heimildir til að hafa eftirlit með einstaklingum sem hafa hlotið dóma fyrir að brjóta kynferðislega gagnvart börnum, þ.e. gagnvart þeim hópi sem er haldin barnagirnd á háu stigi.
„Það eru miklir hagsmunir í húfi. Þessir menn geta verið ansi afkastamiklir og það geta æði mörg börn verið þolendur þessara manna áður en upp um þá kemst,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri BVS, í samtali við mbl.is.
Í vikunni greindi fréttastofa RÚV frá því að dæmdur barnaníðingur hafi í fyrrasumar haft aðgang að fósturheimili þar sem börn séu vistuð af hálfu barnaverndaryfirvalda. Fram kom í fréttinni að nágrannar hefðu komist að því fyrir tilviljun hver maðurinn sé, en hann breytti um nafn eftir að hann lauk afplánun.
Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi engar heimildir að fylgjast með mönnum sem hafa verið dæmdir fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum. Þá hafi lögreglan heldur engar heimildir til að krefjast þess að þeir tilkynni um sína búsetu.
Ljóst sé að menn sem eru haldnir barngirnd séu hættulegir. Aðspurður segir Björgvin að lögreglan telji eðlilegt að það verði skoðað hvort það eigi að taka upp sérstakt eftirlit með þessum einstaklingum.
Bragi segir að þetta sé sundurleitur hópur brotamanna. Hins vegar sé til þekkt aðferðarfræði til að meta það hversu hættulegir menn séu. Hann kveðst vera talsmaður þess að á Íslandi verði tekið upp kerfi sem er hliðstætt er við lýði í Bretlandi. Það miði fyrst og fremst að því að halda utan hóp einstaklinga sem mikil áhætta stafi af, þ.e.a.s. einstaklinga sem séu haldnir eiginlegri barnagirnd. Bragi bætir við að þetta sé aðeins lítill hluti þeirra manna sem hljóti dóma.
Hann bendir á að árlega séu á fjórða tug manna dæmdir fyrir kynferðisbrot. „En það er kannski ekki nema einn í þessum hópi sem er haldinn barnagirnd, sem er mjög líklegur til að brjóta af sér aftur. Við erum kannski að tala um hóp sem telur fimm til tíu einstaklinga á Íslandi í dag.“
Bragi tekur fram að það sé vitað að þessi fámenni hópur muni brjóta af sér á nýjan leik. „Þetta er hópur sem ræður ekki við þessar hvatir sínar,“ segir Bragi og bætir við að þessir einstaklingar þurfi aðhald og stuðning til þess að geta haldið aftur af sér.
Í barnaverndarlögum er BVS heimilt að fá afrit af öllum dómum sem eru felldir í kynferðisbrotamálum. BVS er jafnframt heimilt að gera barnaverndarnefndum viðvart um einstaklinga ef rík barnaverndarsjónamið mæla með því. Nefndunum er í framhaldinu þá heimilt að veita fólki upplýsingar um einstaklinga sem hafa hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn börnum. T.d. ef dæmdur kynferðisbrotamaður flyst inn á heimili þar sem börn eru fyrir.
Bragi tekur hins vegar fram að menn standi frammi fyrir ýmsum vandamálum í tengslum við núverandi löggjöf. Í fyrsta lagi skorti ákvæði um skyldur dæmdra kynferðisbrotamanna til að tilkynna um búsetu sína. „Í rauninni höfum við ekki vitneskju um það hvenær þeir ljúka afplánun og við höfum enga vitneskju um það hvar þeir taka sér búsetu í landinu.“
Í öðru lagi er ekki að finna ákvæði í lögunum að það skuli fara fram áhættumat. Og í þriðja lagi skorti heimildir til handa BVS eða öðrum aðilum til að halda uppi eftirliti.
Bragi segir hins vegar að þetta þurfi að gera mannúðlega og þá sé nauðsynlegt að veita þessum einstaklingum stuðning. Allar rannsóknir á þessu sviði sýni fram á að ef einstaklingar sem séu haldnir barnagirnd fái stuðning, t.d. í atvinnu- eða húsnæðismálum, þá séu þeir ólíklegri til að brjóta af sér aftur heldur en ef að þeir séu útskúfaðir úr samfélaginu.
Þörf sé á heildstæðri aðgerðaráætlun í þessum efnum. „Mér er ekki kunnugt um að það sé nein vinna gangi núna vegna þessa máls,“ segir Bragi aðspurður.