Vegurinn í Landmannalaugar opinn

Ástand fjallvega 1. júní 2012. Vegurinn í Landmannalaugar, gegnum Sigöldu, …
Ástand fjallvega 1. júní 2012. Vegurinn í Landmannalaugar, gegnum Sigöldu, er nú opinn og von er á að Kjalvegur opni innan skamms. Vegagerðin

Búið er að opna veginn frá Sigöldu í Landmannalaugar. Þá er einnig hægt að komast að Hagavatni, sunnan Langjökuls og að Bláfellshálsi. Á Norðurlandi er búið að opna veginn um Flateyjardal og á Austurlandi er búið að opna leiðina frá Kárahnjúkum, vestan við Jökulsá, niður að Brú á Jökuldal og að Sænautaseli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Fylgst með ástandinu dag frá degi

Í samtali við Sigfríði Hallgrímsdóttur hjá Vegagerðinni kom fram að fólk þyrfti að fara fram og til baka í Landmannalaugar. Fjallabak nyrðra væri ekki opið ennþá og að einhver tími væri enn í að hún opni. Hún gat ekki upplýst hvenær mætti búast við opnun Sprengisandar, en sagði að búið væri að ryðja Kjöl að mestu leyti og að vegurinn væri að þorna núna og ætti líklegast að opna innan skamms. Sigríður sagði verkstjóra á hverju svæði fylgjast mjög grannt með hálendinu og meta dag frá degi hvernig staðan væri.

„Kaldadal ætla þeir að fara og hreinsa strax á mánudag,“ sagði Sigfríður. „Þetta er allt að mjakast.“

Á meðfylgjandi korti má sjá ástand vega á hálendinu, hverjir eru opnir og hvar eru lokanir eða takmarkanir. Einnig má fylgjast með ástandinu á vefsíðu Vegagerðarinnar hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert