Ráðuneyti ekki kunnugt um áhrif ESB

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

Efnahags- og viðskiptaráðherra segir að ráðuneyti sínu sé ekki kunnugt um tilvik þess að Evrópusambandið hafi með fjármunum og þátttöku sendiherra og sendiráðs, blandað sér með beinum hætti í umræður um áhrif ESB-aðildar á þá málaflokka sem heyra undir það. Þetta kemur fram í skriflegu svari.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, út í áhrif Evrópusambandsins á umræður um ESB-aðild. 

Meðal þess sem Ásmundur spurði um var hvernig Steingrímur hyggist tryggja að starfsemi Evrópustofu og þeir fjármunir sem ESB ver til hennar, ásamt beinni þátttöku sendiherra og sendiráðs ESB, skekki ekki lýðræðislega umræðu um þá málaflokka sem heyra undir ráðuneytið.

Steingrímur svarar því til, að hluti af því að efla umræðu og upplýsingamiðlun um Evrópusambandið meðan á aðildarferlinu stendur sé að fjármunir hafa verið veittir af Alþingi til þeirra hreyfinga og samtaka sem halda uppi mismunandi sjónarmiðum í umræðunni. 

„Með öflugri og upplýstri umræðu þar sem öllum er gefinn kostur á þátttöku verður endanleg niðurstaða um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu byggð á upplýstri ákvörðun,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert