Nú þegar Landsbankinn hefur lokað útibúum sínum á Flateyri, Súðavík, Bíldudal, Króksfjarðarnesi Grundarfirði, Eskifirði og á Fáskrúðsfirði og engin bankastarfsemi er lengur á þessum stöðum, nema á Grundarfirði, var leitað svara hjá nálægum sparisjóðum um hvort til greina kæmi að þeir myndu opna afgreiðslur á þessum stöðum.
„Við höfum ekki skoðað þetta ennþá. Það er alveg hugsanlegt. Við skulum ekkert útiloka það,“ sagði Björn Torfason, stjórnarformaður Sparisjóðs Strandamanna, aðspurður hvort til greina kæmi að setja upp útibú í Reykhólasveit eftir að Landsbankinn lokaði þar útibúi sínu í dag.
„Það þarf töluvert til að standa undir útibúi,“ segir Björn. Málið hafi ekkert verið rætt innan stjórnar sjóðsins og því ekki hægt að svara endanlega hvort fyrir þessu sé grundvöllur eða áhugi.
Björn segir sparisjóðinn ganga vel, en að rekstrarkostnaðurinn sé alltaf að hækka sem geri erfitt fyrir. Annar rekstrarkostnaður sé að verða tvöfalt hærri en launakostnaður. „Það eru komnir svo miklir skattar, eftirlitsgjöld og fleira, sem þyngir reksturinn,“ segir Björn.