Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu í upphafi þingfundar að veiðileyfagjaldafrumvarpið yrði rætt án þess að það lægi fyrir hvernig frumvarp um stjórn fiskveiða liti út. Farið var fram á að umræðu um veiðileyfagjöldin yrði frestað.
Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sagði að til þess að geta rætt um veiðileyfagjöld yrðu menn að hafa fyrir framan sig frumvarp um stjórn fiskveiða vegna þess að rammalöggjöf um fiskveiðistjórnun hefði mikil áhrif á getu sjávarútvegsins til að greiða veiðileyfagjald.
Fleiri þingmenn tóku undir þetta sjónarmið. Pétur H. Blöndal sagði eðlilegt að byrja á því að afgreiða frumvarp um stjórn fiskveiða og síðan gætu menn farið að ræða um veiðileyfagjöld.
Kristján Möller, formaður atvinnuveganefndar, spurði hvort stjórnarandstaðan væri að fara fram á að þessi tvö frumvörp yrðu rætt samhliða. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sögðu svo ekki vera, einungis að breytingartillögur meirihlutans við bæði frumvörpin lægju fyrir.
Atvinnuveganefnd hefur afgreitt breytingartillögur við frumvarp um veiðileyfagjöld og er frumvarpið á dagskrá Alþingis í dag. Hitt frumvarpið er enn í atvinnuveganefnd og sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í morgun að gera þyrfti frekari breytingar á því.