Vill hækka veiðigjald í 50 milljarða

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarp um veiðigjöld sem gerir ráð fyrir að almennt veiðigjald verði 99 kr. á hvert þorskígiliskíló. Það þýðir að gjaldið myndi skila tæplega 50 milljörðum en ekki 4 milljörðum, eins og frumvarp sjávarútvegsráðherra kveður á um.

Samkvæmt frumvarpinu verður lagt á tvenns konar veiðigjald. Annars vegar almennt gjald sem er greitt óháð afkomu útgerðarinnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þetta gjald verði 8 kr. á hvert þorskígildistonn. Þetta á að skila 4 milljörðum króna á ári. Hins vegar er gert ráð fyrir að lagt verði á sérstakt veiðigjald sem taki mið af afkomu útgerðarinnar. Reiknað er með að það geti skilað 11 milljörðum á næsta ári.

Þór vill að almenna gjaldið fari úr 8 krónum í 99 krónur á hvert þorskígildiskíló og fylgi síðan nýjustu og mánaðarlegum verðvísitölum fyrir botnfiskafla annars vegar og uppsjávarafla hins vegar.

Þór sagði í samtali við mbl.is að þetta gjald, 99 kr., væri innan við þriðjungur af verði á leigukvóta eins og það var í janúarmánuði. „Ég held að flestir almennir útgerðarmenn ættu að ráða við þetta. Þeir sem ekki ráða við þetta eru bara skussarnir,“ sagði Þór.

Þór sagði rétt að ekki væri allur afli sem landað er af Íslandsmiðum veiddur á grundvelli leigukvóta. „Ef einhver getur gert út á þessu verði þá hljóta flestallir að geta gert út á 1/3 af þessu verði.“

Þór sagði að ljóst að ekki myndu allir lifa af breytingar á fiskveiðistjórnkerfinu, en það væru komnar inn breytingartillögur um aðlögunartíma og að menn sem keypt hafa kvóta fái frádrátt.

Þór ætlar einnig að leggja fram breytingartillögu á frumvarpinu um stjórn fiskveiða. Tillagan gerir ráð fyrir að allur afli sé seldur í gegnum fiskmarkaði og að útgerðir sem selja fisk til eigin fiskvinnslu verði að taka mið af því verði sem er á markaði. Lagt er til að í upphafi fari 25% af öllum fiski í gegnum markaði og þetta hlutfall hækki á nokkrum árum þar til allur fiskur fari um markaði. Þá gerir tillagan ráð fyrir að ekki megi selja óunninn fisk úr landi nema hann hafi fyrst verið seldur á fiskmarkaði hér heima.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert