Landssamband íslenskra útvegsmanna og aðildarfélög þess hafa beint því til félagsmanna sinna að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag. Ástæðan er sú óvissa sem frumvörp ríkisstjórnarinnar um sjávarútveg skapar.
„Vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem blasir við íslenskum sjávarútvegi verði frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld sem nú eru til meðferðar á Alþingi að lögum er því beint til félagsmanna að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag,“ segir í yfirlýsingu frá Útvegsmannafélagi Austfjarða, Útvegsmannafélagi Akraness, Útvegsmannafélagi Hafnarfjarðar, Útvegsbændafélaginu Heimaey, Útvegsmannafélagi Hornafjarðar, Útvegsmannafélagi Norðurlands, Útvegsmannafélagi Reykjavíkur, Útvegsmannafélagi Snæfellsness, Útvegsmannafélagi Suðurnesja, Útvegsmannafélagi Vestfjarða, Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja og Útvegsmannafélagi Þorlákshafnar.
„Útvegsmenn munu í næstu viku funda með starfsfólki, sveitarstjórnum og fjölmörgum aðilum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi um áhrif þess ef frumvörpin verða að lögum.
Þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir fjölmargra aðila við frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld sem nú liggja fyrir Alþingi hafa þau ekki tekið nauðsynlegum breytingum.
Útvegsmenn hafa ítrekað leitað eftir samstarfi við stjórnvöld um niðurstöðu um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða en án árangurs.
Það er nauðsynlegt að ná farsælli lausn í þessu mikilvæga máli og í því skyni verður enn leitað eftir samstarfi við stjórnvöld.
Útvegsmenn líta á það sem neyðarúrræði að halda skipunum ekki til veiða, þó að um tímabundna aðgerð sé að ræða í þetta sinn.
Okkur er ljóst að stöðvun fiskiskipaflotans mun hafa áhrif á fjölmarga aðila sem tengjast sjávarútvegi. Við biðjum þá alla að virða þessa ákvörðun enda væri ábyrgðarlaust að bregðast ekki við þeirri alvarlegu stöðu sem stefnir í. Markmið okkar er að koma í veg fyrir það mikla tjón sem við blasir.“