Efast um að við hefðum hana hjá okkur nema vegna hjálmsins

Lilja Rós Gunnarsóttir.
Lilja Rós Gunnarsóttir. Ljósmynd/Víkurfréttir

Lilja Rós Gunnarsóttir lenti í alvarlegu hjólreiðaslysi í fyrrasumar, sjö ára gömul. Vitni segja að hún hafi henst tvo metra upp í loftið og skollið með höfuðið í götunni. Gunnar Stefánsson, faðir Lilju, segist efast um að hún væri enn á lífi ef ekki hefði verið fyrir splunkunýjan hjálm sem hún bar.

„Hún var að leika við vinkonu sína inni í íbúðarhverfi í Njarðvík. Úti var sól og blíða. Hún var að hjóla. Aðvífandi kom bíll inn íbúðargötuna á 50 km hraða og bílstjórinn var að horfa eitthvað annað. Dóttir mín sá það og reyndi að beygja til þess að koma sér undan. Það tókst ekki betur til en svo að hún lenti á bílnum. Vitni segja að við höggið hafi hún henst hátt í tvo metra upp í loftið. Í kjölfarið skellur höfuðið svo í götuna,“ segir Gunnar um slysið sem varð í júní á síðasta ári.

Lilja lærbeinsbrotnaði í árekstrinum auk þess sem stórsá á hjálmi sem varði höfuð hennar. „Hún slapp við heilahristing en hún var ansi mikið slösuð og fór í aðgerð um kvöldið.“

Alltaf taugaveikluð í umferðinni

Eftir slysið lá Lilja í átta vikur á sjúkrahúsi með fætur upp í loft. Atvikið átti sér stað 15. júní en hún losnaði úr gifsi 20. ágúst. Eftir það tók við hjólastóll og hækjur áður en endurhæfing gat hafist. „Það var ekki fyrr en um áramótin sem hún var rólfær, um hálfu ári seinna,“ segir Gunnar.

Eðlilega tók slysið mjög á sálarlíf Lilju Rósar en nú horfir til betri vegar. „Henni líður betur í dag og er byrjuð að hjóla aftur. En það hefur verið töluvert mál að koma henni út í umferðina aftur. Þó að beinin grói þá tekur lengri tíma að jafna sig á sálinni. Hún er alltaf taugaveikluð í umferðinni,“ segir Gunnar.

Hann er sviðsstjóri björgunar og slysavarna hjá Landsbjörg og hefur að undanförnu talað við nemendur um mikilvægi hjálmsins.

„Ef eitthvað er skólabókardæmi um það að hjálmurinn bjargi lífi þá er það í þessu tilviki. Ef hún hefði ekki verið með hjálm í slysinu efast ég um að ég hefði hana hjá mér í dag. Hún var með splunkunýjan hjálm sem Kiwanisklúbburinn og Eimskip gáfu henni. Því langar mig að koma skýrum skilaboðum til krakka um að nota hjálminn.“

Bílstjórinn hafði aldrei samband

Í lögregluskýrslu segir eftir ökumanni að hátt grindverk við innkeyrslu hafi leitt til þess að ökumaður sá ekki stúlkuna.

„Ég sá hann aldrei meira eftir atvikið. Hann fór að sjálfsögðu í skýrslutöku en við fengum aldrei frá honum kveðju eða neitt. Það eina sem ég veit um hann er það sem ég las á lögregluskýrslu,“ segir Gunnar.

Fjölskyldulífið fór á annan endann í fyrrasumar vegna atviksins. Til stóð að fjölskyldan færi í sumarfrí til útlanda en ferðin frestaðist vegna slyssins. Nú stendur til að bæta úr því. „Það breyttust allar áætlanir í fyrra en nú ætlum við að skella okkur út saman. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur að fara,“ segir Gunnar að lokum.

Lilja Rós Gunnarsdóttir og Gunnar Stefánsson, faðir hennar.
Lilja Rós Gunnarsdóttir og Gunnar Stefánsson, faðir hennar. Ljósmynd/Víkurfréttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert