Skipin á leið í land

Myndin var tekin í gær í Reykjavíkurhöfn þar sem þessar …
Myndin var tekin í gær í Reykjavíkurhöfn þar sem þessar konur æfðu sig fyrir kappróður á sjómannadaginn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fá fiskiskip er nú á sjó, en á morgun verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur. Mörg skip sigldu inn í höfn í gær og í nótt og síðustu skipin koma í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar voru 89 íslensk skip í lögsögunni kl. 9 í morgun, en þar eru fraktskip meðtalin.

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur víða um land en undir yfirskriftinni Hafnardagar í Þorlákshöfn og Sjóarinn síkáti í Grindavík, svo dæmi séu tekin. Í Reykjavík var dagurinn sameinaður Hafnardegi árið 1999 undir nafninu Hátíð hafsins.

Hátíðin í Reykjavík hefst í dag kl. 10 en þá er hátíðin flautuð inn af skipslúðrum en dagskráin stendur sem hæst frá kl. 13:00 – 17:00. Meðal atriða má nefna sjóræningjasiglingar, svífandi marglyttur, fiskasýning, lostæti úr hafinu, dorgveiði, listsmiðjur og Gói og Þröstur Leó verða á svæðinu.

Færeyski kútterinn Westward Ho siglir inn í Reykjavíkurhöfn um kl. 13:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert