Það er svo margt vinur,“ segir Óli Ólason útgerðarmaður frá Grímsey föðurlega, spurður hvað heilli við hafið. „Eiginlega er ekki hægt að segja frá því. Það er spenna, maður ræður sér sjálfur, stjórnar sjálfur, er ekki á tímakaupi, er bara...“
– Einn með náttúrunni?
„Nei, maður var nú með menn með sér,“ svarar hann og hristir höfuðið.
– En þessu fylgir spenna?
„Heilmikil spenna! Maður verður spenntur yfir að veiða og reikna út hvernig á að gera þetta. Það er mikil kúnst að sökkva línu niður á 160 til 180 faðma dýpi og reikna út strauminn, hún getur borist 1 til 2 sjómílur ef straumurinn er sterkur. Það er kúnst að koma henni niður á réttan stað.“
Elín Þóra Sigurbjörnsdóttir, móðir Óla, fæddist á Sveinsstöðum í Grímsey, en faðir hans Óli Bjarnason, er uppalinn í Fjörðum – á Hóli í Þorgeirsfirði. Þegar hann var níu ára missti hann pabba sinn, móðir hans giftist aftur og flutti út í Grímsey.
„Það var gott að alast hér upp,“ segir Óli með glampa í augum. „Það þætti ekki sniðugt núna, en við fórum níu og tíu ára, fengum lánaðan árabát og rerum eitt sumar. Við máttum ekki fara austur fyrir eyna, þar sem björgin eru, því þá vorum við komnir í hvarf og vorum ósyndir. Þetta er gáfulegt núna,“ segir hann og hlær.
„Við fiskuðum mikið. Það var frystihús þarna og við höfðum heilmikið upp úr þessu guttarnir. Þetta þótti rosalega flott og var fyrsta sjómennska mín. Síðan er ég búinn að vera í 70 ár á sjó.“
Upp úr þessu fór hann á bát með pabba sínum og afa, þar til hann gerði út sjálfstætt. „Ég fór á vertíð suður, bæði til Vestmannaeyja og Grindavíkur, því það voru léleg hafnarskilyrði heima. Svo fengum við góða höfn og gátum róið allt árið.“
– Þetta er lítið samfélag?
„Það er bara gott. Menn þekkjast vel og ef eitthvað kemur fyrir, eru allir boðnir og búnir að hjálpa.“
Óli seig í björgin í fjörutíu ár. „Það byrjaði þegar ég var fjórtán ára. Þá fékk pabbi stein í höfuðið og hætti – og ég tók við. Þetta segi ég alltaf,“ segir hann og brosir.
„Það kom aldrei neitt fyrir mig, nema einu sinni braut ég mig aðeins á fæti og einu sinni fékk ég stein í hausinn. En þá var ég kominn með plasthjálm, hann brotnaði og skar mig, þannig að ég var alblóðugur þegar ég kom upp. Það hefur ekki verið sjón að sjá mig. En þetta var ekki neitt. Það hættulegasta við að síga var ef smásteinn hrundi úr hundrað metra hæð; maður þurfti stöðugt að gá að grjóthruni, eiginlega að vera með annað augað uppi.“
– En þú varst ekki lofthræddur?
„Nei, það var ég ekki. Ég hafði klifrað mikið áður en ég fór að síga. En þá hætti ég því. Ég sá hvað það er vitlaust. Það er mikið betra að vera í vaðnum.“
– Þú hefur byrjað snemma?
„Þá var ég strákur, bara að fíflast og ná í egg. Stundum komst ég í svo mikla sjálfheldu, að ég hét því að gera þetta aldrei aftur ef ég kæmist upp eða niður. En svo gleymdi maður því strax.“
– Hvernig var að eiga við fýlinn?
„Það var ógeðslegt,“ segir Óli og ljómar. „Þá var fýlunginn veiddur í bjarginu, það þurfti að síga á hann, svo var maður með prik og snöru á endanum, setti hana á hausinn á þeim. Ég kom einu sinni að fjórum, fimm inni í skúta, vissi að þeir myndu fljúga ef ég ætlaði að taka þá með prikinu, tók bara sprang eins og í Vestmannaeyjum og stökk fyrir. Þá kom ælan framan í mig – ég ældi bara á móti, því ég fékk upp í mig. Ég fékk hana í augun líka og sá illa, en hélt þeim öllum. Þeir verja sig með þessu og það er ægilegur óþverri, enda varð að henda fötunum. Svo fórum við að taka þá af sjónum. Fýllinn verður svo feitur að hann rétt kemst úr bjarginu í sjóinn og getur ekki flogið fyrstu dagana á meðan hann er að megra sig, þannig að við tókum hann bara með háf.“
– Og gömlu mennirnir náðu fuglinum án þess að vera með byssu?
„Það var kallað að hlaupa undir,“ segir Óli . „Fuglinn sat í urðunum, en var ekki hátt í bjarginu. Þá hlupu þeir fyrir og örguðu, fuglinn missti við það flugið og hafði sig ekki fram í sjóinn. Og þeir tóku hann bara í fjörunni. Það voru ekki nema örfáir sem áttu byssu.“
Grímsey er mikil matarkista, en ekki er alltaf á vísan að róa. „Þegar hafísinn kemur versnar í því – þegar allt lokast. Afi gamli sagði mér frá því, að rétt fyrir jólin 1880 var matarlaust og menn ætluðu að ná í hveiti og nauðsynjar. Það gerði grenjandi stórhríð í heila viku og þegar birti upp var allt orðið fullt af ís, engin talstöð og enginn sími. Sjö eða átta fóru róandi á árabát og fólkið í Grímsey vissi ekkert um afdrif þeirra. Þeir komust ekki til baka fyrr en eftir þrjá eða fjóra mánuði og það var víst ægileg gleði þegar þeir komu með kaffið!“
Óli hefur alltaf unnið mikið, yfirleitt á sjónum. „Ég tók þriggja mánaða tarnir, svo smáhvíld, fór kannski í sumarfrí. Þá var maður að drepast úr vöðvabólgu og svínaríi, því ég stóð í sömu sporum allan daginn. Það var einhæf vinna að gogga fisk. Ég keypti lítinn dekkbát, 11 tonn, gerði hann út frá Grindavík eina vertíð og síðan frá Grímsey. Síðustu árin var ég með harða báta. Ég er búinn að fiska svo mikið að ég þori ekki að taka það saman – það er svo mikið. Ég fór aldrei niður fyrir 500 tonn þessi ár.“
– Lentirðu í sjávarháska?
„Já, nokkrum sinnum, ekkert alvarlegt samt. Ég lenti bara í brjáluðum veðrum og lenti í að bjarga mönnum líka. Einu sinni strandaði Bergfoss austan við Grímsey, hann var að koma með grjót úr landi í höfnina. Þeir höfðu farið í var þegar það kom norðaustanhvellur. Þá bilaði og þá rak upp í fjöru. Tvær gjár voru í berginu, við fórum niður aðra, þá fljótfarnari, og þeir voru komnir upp í fjöruna þegar við komum, blautir og kaldir í stórhríð. Ég og pabbi fórum með þá tvo og hálfan kílómetra eftir fjörunni og upp aðra gjá. Það þótti gott að koma þeim þessa leið.“
Hann segir rugl að banna veiðar á svartfugli. „Af því að fuglinn flytur sig bara til. Það hefur aldrei verið meira í Grímsey af fugli en núna, bara af því að ætið er komið norður. Ég sá þegar lundinn hvarf úr Færeyjum með sílinu og fluttist fyrir Norðurlandið, bæði Flatey og Grímsey. Nú er allt sundurgrafið í Flatey og víða við Tjörnesið. Fuglinn kann að fljúga!“
Hann sendir fiskifræðingum tóninn: „Þeir vissu ekki að fiskurinn gæti synt. Vísindin eru þannig að þeir toguðu alltaf á sama blettinum, sama strik og á sama dýpi. Einu sinni mokfiskuðu þeir suðvestur af eyjunni á Brettingi. Ég hringdi til að vita hvar netin og línan lágu til að það skemmdi ekki fyrir okkur. Þegar ég kom að baujunni sá ég að hann var að hífa og hringdi til að spyrja hvort ekki væri mok, því við vorum að fiska svo mikið: „Var ekki hellingur?“ En þá var svarið: „Við leystum ekkert frá, það var ekki einn einasti fiskur.“ Hann var á 100 föðmum, dró eftir þeirri línu, en ég var á 80 föðmum. „Já, ég veit það,“ sagði hann. „Ég má bara ekkert toga þarna.“
Fiskurinn var á einni og hálfri mílu, öll torfan. Svona var það.
Ég reifst alltaf við þá um þetta. Jakob [Jakobsson fyrrverandi forstjóri Hafró] var mikill vinur minn, hann var að merkja síld með pabba sínum heima og ég reifst oft við hann. Þeir komu á einn stað, Nafir, og það var í fyrsta skipti sem komu 35 tonn í halinu. Síðan þá hefur aldrei þurft að leysa frá, ekkert verið í því, og svo er reiknað meðaltal af því. Ég sagði að þetta væru engin vísindi. „Jú, jú, þetta eru vísindi.“ Það er eins og þeir haldi að fiskurinn geti ekki synt. Næsta ár á hann að vera þarna og má ekki hafa fært sig. Þetta er agalega skrítið, en alveg dagsatt!“
– Á að veiða meira?
„Þetta er bara rugl. Það á að veiða mikið meira!“