„Ég ældi bara á móti“

Óli Ólason útgerðarmaður frá Grímsey.
Óli Ólason útgerðarmaður frá Grímsey. Ljósmynd/Friðþjófur Helgason

Það er svo margt vin­ur,“ seg­ir Óli Ólason út­gerðarmaður frá Gríms­ey föður­lega, spurður hvað heilli við hafið. „Eig­in­lega er ekki hægt að segja frá því. Það er spenna, maður ræður sér sjálf­ur, stjórn­ar sjálf­ur, er ekki á tíma­kaupi, er bara...“

– Einn með nátt­úr­unni?

„Nei, maður var nú með menn með sér,“ svar­ar hann og hrist­ir höfuðið.

– En þessu fylg­ir spenna?

„Heil­mik­il spenna! Maður verður spennt­ur yfir að veiða og reikna út hvernig á að gera þetta. Það er mik­il kúnst að sökkva línu niður á 160 til 180 faðma dýpi og reikna út straum­inn, hún get­ur borist 1 til 2 sjó­míl­ur ef straum­ur­inn er sterk­ur. Það er kúnst að koma henni niður á rétt­an stað.“

Níu ára á sjó­inn

Elín Þóra Sig­ur­björns­dótt­ir, móðir Óla, fædd­ist á Sveins­stöðum í Gríms­ey, en faðir hans Óli Bjarna­son, er upp­al­inn í Fjörðum – á Hóli í Þor­geirs­firði. Þegar hann var níu ára missti hann pabba sinn, móðir hans gift­ist aft­ur og flutti út í Gríms­ey.

„Það var gott að al­ast hér upp,“ seg­ir Óli með glampa í aug­um. „Það þætti ekki sniðugt núna, en við fór­um níu og tíu ára, feng­um lánaðan ára­bát og rer­um eitt sum­ar. Við mátt­um ekki fara aust­ur fyr­ir eyna, þar sem björg­in eru, því þá vor­um við komn­ir í hvarf og vor­um ósynd­ir. Þetta er gáfu­legt núna,“ seg­ir hann og hlær.

„Við fiskuðum mikið. Það var frysti­hús þarna og við höfðum heil­mikið upp úr þessu gutt­arn­ir. Þetta þótti rosa­lega flott og var fyrsta sjó­mennska mín. Síðan er ég bú­inn að vera í 70 ár á sjó.“

Upp úr þessu fór hann á bát með pabba sín­um og afa, þar til hann gerði út sjálf­stætt. „Ég fór á vertíð suður, bæði til Vest­manna­eyja og Grinda­vík­ur, því það voru lé­leg hafn­ar­skil­yrði heima. Svo feng­um við góða höfn og gát­um róið allt árið.“

– Þetta er lítið sam­fé­lag?

„Það er bara gott. Menn þekkj­ast vel og ef eitt­hvað kem­ur fyr­ir, eru all­ir boðnir og bún­ir að hjálpa.“

Hjálm­ur­inn brotnaði

Óli seig í björg­in í fjöru­tíu ár. „Það byrjaði þegar ég var fjór­tán ára. Þá fékk pabbi stein í höfuðið og hætti – og ég tók við. Þetta segi ég alltaf,“ seg­ir hann og bros­ir.

„Það kom aldrei neitt fyr­ir mig, nema einu sinni braut ég mig aðeins á fæti og einu sinni fékk ég stein í haus­inn. En þá var ég kom­inn með plast­hjálm, hann brotnaði og skar mig, þannig að ég var al­blóðugur þegar ég kom upp. Það hef­ur ekki verið sjón að sjá mig. En þetta var ekki neitt. Það hættu­leg­asta við að síga var ef smá­steinn hrundi úr hundrað metra hæð; maður þurfti stöðugt að gá að grjót­hruni, eig­in­lega að vera með annað augað uppi.“

– En þú varst ekki loft­hrædd­ur?

„Nei, það var ég ekki. Ég hafði klifrað mikið áður en ég fór að síga. En þá hætti ég því. Ég sá hvað það er vit­laust. Það er mikið betra að vera í vaðnum.“

– Þú hef­ur byrjað snemma?

„Þá var ég strák­ur, bara að fífl­ast og ná í egg. Stund­um komst ég í svo mikla sjálf­heldu, að ég hét því að gera þetta aldrei aft­ur ef ég kæm­ist upp eða niður. En svo gleymdi maður því strax.“

– Hvernig var að eiga við fýl­inn?

„Það var ógeðslegt,“ seg­ir Óli og ljóm­ar. „Þá var fýl­ung­inn veidd­ur í bjarg­inu, það þurfti að síga á hann, svo var maður með prik og snöru á end­an­um, setti hana á haus­inn á þeim. Ég kom einu sinni að fjór­um, fimm inni í skúta, vissi að þeir myndu fljúga ef ég ætlaði að taka þá með prik­inu, tók bara sprang eins og í Vest­manna­eyj­um og stökk fyr­ir. Þá kom ælan fram­an í mig – ég ældi bara á móti, því ég fékk upp í mig. Ég fékk hana í aug­un líka og sá illa, en hélt þeim öll­um. Þeir verja sig með þessu og það er ægi­leg­ur óþverri, enda varð að henda föt­un­um. Svo fór­um við að taka þá af sjón­um. Fýll­inn verður svo feit­ur að hann rétt kemst úr bjarg­inu í sjó­inn og get­ur ekki flogið fyrstu dag­ana á meðan hann er að megra sig, þannig að við tók­um hann bara með háf.“

– Og gömlu menn­irn­ir náðu fugl­in­um án þess að vera með byssu?

„Það var kallað að hlaupa und­ir,“ seg­ir Óli . „Fugl­inn sat í urðunum, en var ekki hátt í bjarg­inu. Þá hlupu þeir fyr­ir og örguðu, fugl­inn missti við það flugið og hafði sig ekki fram í sjó­inn. Og þeir tóku hann bara í fjör­unni. Það voru ekki nema ör­fá­ir sem áttu byssu.“

Í brjáluðum veðrum

Gríms­ey er mik­il mat­arkista, en ekki er alltaf á vís­an að róa. „Þegar haf­ís­inn kem­ur versn­ar í því – þegar allt lokast. Afi gamli sagði mér frá því, að rétt fyr­ir jól­in 1880 var mat­ar­laust og menn ætluðu að ná í hveiti og nauðsynj­ar. Það gerði grenj­andi stór­hríð í heila viku og þegar birti upp var allt orðið fullt af ís, eng­in tal­stöð og eng­inn sími. Sjö eða átta fóru ró­andi á ára­bát og fólkið í Gríms­ey vissi ekk­ert um af­drif þeirra. Þeir komust ekki til baka fyrr en eft­ir þrjá eða fjóra mánuði og það var víst ægi­leg gleði þegar þeir komu með kaffið!“

Óli hef­ur alltaf unnið mikið, yf­ir­leitt á sjón­um. „Ég tók þriggja mánaða tarn­ir, svo smá­hvíld, fór kannski í sum­ar­frí. Þá var maður að drep­ast úr vöðva­bólgu og svína­ríi, því ég stóð í sömu spor­um all­an dag­inn. Það var ein­hæf vinna að gogga fisk. Ég keypti lít­inn dekk­bát, 11 tonn, gerði hann út frá Grinda­vík eina vertíð og síðan frá Gríms­ey. Síðustu árin var ég með harða báta. Ég er bú­inn að fiska svo mikið að ég þori ekki að taka það sam­an – það er svo mikið. Ég fór aldrei niður fyr­ir 500 tonn þessi ár.“

– Lent­irðu í sjáv­ar­háska?

„Já, nokkr­um sinn­um, ekk­ert al­var­legt samt. Ég lenti bara í brjáluðum veðrum og lenti í að bjarga mönn­um líka. Einu sinni strandaði Berg­foss aust­an við Gríms­ey, hann var að koma með grjót úr landi í höfn­ina. Þeir höfðu farið í var þegar það kom norðaust­an­hvell­ur. Þá bilaði og þá rak upp í fjöru. Tvær gjár voru í berg­inu, við fór­um niður aðra, þá fljót­farn­ari, og þeir voru komn­ir upp í fjör­una þegar við kom­um, blaut­ir og kald­ir í stór­hríð. Ég og pabbi fór­um með þá tvo og hálf­an kíló­metra eft­ir fjör­unni og upp aðra gjá. Það þótti gott að koma þeim þessa leið.“

Það á að veiða meira

Hann seg­ir rugl að banna veiðar á svart­fugli. „Af því að fugl­inn flyt­ur sig bara til. Það hef­ur aldrei verið meira í Gríms­ey af fugli en núna, bara af því að ætið er komið norður. Ég sá þegar lund­inn hvarf úr Fær­eyj­um með síl­inu og flutt­ist fyr­ir Norður­landið, bæði Flat­ey og Gríms­ey. Nú er allt sund­ur­grafið í Flat­ey og víða við Tjör­nesið. Fugl­inn kann að fljúga!“

Hann send­ir fiski­fræðing­um tón­inn: „Þeir vissu ekki að fisk­ur­inn gæti synt. Vís­ind­in eru þannig að þeir toguðu alltaf á sama blett­in­um, sama strik og á sama dýpi. Einu sinni mok­fiskuðu þeir suðvest­ur af eyj­unni á Brett­ingi. Ég hringdi til að vita hvar net­in og lín­an lágu til að það skemmdi ekki fyr­ir okk­ur. Þegar ég kom að bauj­unni sá ég að hann var að hífa og hringdi til að spyrja hvort ekki væri mok, því við vor­um að fiska svo mikið: „Var ekki hell­ing­ur?“ En þá var svarið: „Við leyst­um ekk­ert frá, það var ekki einn ein­asti fisk­ur.“ Hann var á 100 föðmum, dró eft­ir þeirri línu, en ég var á 80 föðmum. „Já, ég veit það,“ sagði hann. „Ég má bara ekk­ert toga þarna.“

Fisk­ur­inn var á einni og hálfri mílu, öll torf­an. Svona var það.

Ég reifst alltaf við þá um þetta. Jakob [Jak­obs­son fyrr­ver­andi for­stjóri Hafró] var mik­ill vin­ur minn, hann var að merkja síld með pabba sín­um heima og ég reifst oft við hann. Þeir komu á einn stað, Nafir, og það var í fyrsta skipti sem komu 35 tonn í hal­inu. Síðan þá hef­ur aldrei þurft að leysa frá, ekk­ert verið í því, og svo er reiknað meðaltal af því. Ég sagði að þetta væru eng­in vís­indi. „Jú, jú, þetta eru vís­indi.“ Það er eins og þeir haldi að fisk­ur­inn geti ekki synt. Næsta ár á hann að vera þarna og má ekki hafa fært sig. Þetta er aga­lega skrítið, en al­veg dagsatt!“

– Á að veiða meira?

„Þetta er bara rugl. Það á að veiða mikið meira!“

Lundapar í Grímsey.
Lundap­ar í Gríms­ey. mbl.is/​efi
Óli spilaði á harmóníku á böllum í gamla daga en …
Óli spilaði á harm­ón­íku á böll­um í gamla daga en seg­ist hætt­ur því. „Það voru alltaf böll, enda síld­in í kring og mikið af skip­um sem lögðu upp að. Svo varð allt vit­laust á dans­gólf­inu Ljós­mynd/​Helga Mattína Björns­dótt­ir
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka