Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup tapa ríkisstjórnarflokkarnir fylgi en stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn eykst. Ríkisstjórnin mælist nú með 29 prósenta fylgi og hefur það minnkað um tvö prósent frá síðasta mánuði. Er greint frá þessu á fréttavef Rúv.
Rúmlega 39% þeirra sem tóku afstöðu til könnunarinnar segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það er aukning um tvö prósentustig frá síðasta mánuði.
Þá segjast tæplega 18% ætla að kjósa Samfylkinguna, um 13% Framsóknarflokkinn, tæplega sex prósent Samstöðu, um fjögur prósent Bjarta framtíð, rúmlega tíundi hver Vinstri græna, um fimm prósent Dögun og um fjögur prósent Hægri græna.
Um 13% taka ekki afstöðu til könnunarinnar og 14% segjast ætla að skila auðu. Heildarúrtak í könnun Capacent Gallup, sem var net- og símakönnun sem lauk 31. maí, var ríflega 6.600 manns og svarhlutfall 61%.