Vildi ekki varpa skugga á daginn

Steingrímur J. Sigfússon ráðherra sjávarútvegsmála hélt ræðu í tilefni dagsins.
Steingrímur J. Sigfússon ráðherra sjávarútvegsmála hélt ræðu í tilefni dagsins. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég ætla fyrir mitt leyti ekki að varpa frekari skugga á þennan hátíðisdag sjómanna en orðið er með því að draga inn á þann vettvang umfjöllun um átök stórútgerðarmanna við stjórnvöld og aðferðir þeirra fyrrnefndu í því sambandi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, í sjómannadagsræðu sinni á Granda í dag.

Steingrímur sagði eflaust marga hafa búist við því að hann myndi nota tækifæri og ræða stöðu þeirra mála sem Alþingi hefur nú til umfjöllunar og varða stjórn fiskveiða og veiðigjöld eða auðlindarentu. „Það kynni ég að hafa látið eftir mér ef mál hefðu ekki skipast með þeim hætti sem raun bar vitni í gær. Í ljósi þess að í dag er hátíðisdagur sjómanna, lögbundnir frídagar þeirra og samvera með fjölskyldum í landi standa yfir, vildi ég fyrst og fremst nálgast málin frá þeim sjónarhóli sem að sjómönnum snýr og fullvissa sjómenn um að engu í þessum málum er stefnt gegn hagsmunum sjómannastéttarinnar sem slíkrar.“

Þá sagði Steingrímur að hans sannfæring væri sú, að bjart væri framundan í íslenskum sjávarútvegi. „Við erum gæfusöm, Íslendingar, að okkar mikilvægasta undirstöðuatvinnugrein er matvælastóriðja. Ein stærsta gjöf þessarar þjóðar frá hendi móður náttúru eru fiskimiðin umhverfis landið. Okkur hefur á heildina litið tekist að varðveita og nýta þá gjöf með sæmilega ábyrgum og farsælum hætti. [...] Deilumál munu leysast, sólin heldur áfram að koma upp á morgnana, árstíðirnar hafa sinn gang, börnin vaxa úr grasi. Með öðrum orðum: lífið heldur áfram þrátt fyrir alla heimsins taugaveiklun og æsing.“

Taka verður tillit til sérstöðunnar

Steingrímur fór einnig yfir kjaramál sjómanna og sagði stéttina leggja gríðarlega mikið af mörkum til þjóðarbúsins í gegnum þau verðmæti sem koma að landi en ekki síður í gegnum skatta af tekjum sínum. „Ég vil taka það skýrt fram að þó þessi sé í augnablikinu staðan með sjómannafrádráttinn og enn eigum við ein tvö ár eftir þar til afkoma ríkissjóðs verður komin í ásættanlegt horf, sem sagt reksturinn orðinn hallalaus, þá er ég ekki þeirrar skoðunar að við eðlilegar aðstæður í ríkisfjármálum geti ekki staðið rök til að taka tillit til sérstöðu sjómannsstarfsins í skattalegu tilliti.“

Hvað skattaafsláttinn varðar sagðist Steingrímur sjá hann fyrir sér annaðhvort í formi einhvers konar sjómannafrádráttar eða skattalegra ívilnana sem tengdust fæðis- eða fatapeningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert