Gefa sókninni Grundarkirkju

Grundarkirkja í Eyjafjarðarsveit.
Grundarkirkja í Eyjafjarðarsveit. mbl.is/Sigurður Ægisson

Breytingar hafa orðið á eignarhaldi Grundarkirkju í Eyjafjarðarsveit. Fyrri eigendur, Aðalsteina Magnúsdóttir og Gísli Björnsson, hafa gefið sókninni kirkjuna og allt sem henni fylgir. Þetta kemur fram í frétt á vef Vikudags.

Grundarkirkja var reist árið 1905 af staðarbóndanum Magnúsi Sigurðssyni. Hugmynd hins stórhuga athafnamanns var að reisa á staðnum kirkju fyrir allan Eyjafjörð, innan Akureyrar. Magnús fékk Ásmund Bjarnason frá Geitaskarði í Fljótsdal til þess að gera endanlega teikningu af kirkjunni. Ásmundur sá um smíði hennar en hann hafði numið trésmíði í Kaupmannahöfn. Endanlegar teikningar gerði hann eftir frumteikningum og tillögum Magnúsar og Sigtryggs Jónssonar trésmíðameistara á Akureyri.

Timbrið var flutt frá Akureyri veturinn 1903-4. Auk Ásmundar unnu fjórir smiðir að byggingunni. Magnús rauf forna hefð þegar hann ákvað að láta kirkjuna snúa norður-suður í stað austur-vestur og er altarið í norðurenda hennar.

Magnús skar glerið í kirkjuna, Ásmundur yfirsmiður og Pálmi Jósefsson frá Samkomugerði smíðuðu predikunarstól og altari. Norskur málari, Muller að nafni, málaði kirkjuna og skreytti.

Kirkjan var vígð af prófasti 12. nóvember 1905, daginn eftir að Akureyringar höfðu haldið upp á sjötugsafmæli þjóðskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar, sem einnig var við vígsluna og mælti þar nokkur orð. Merkilegur kaleikur er kenndur við Grund, með ártalinu 1489 á stéttarbrún, hreinræktaður gotneskur kaleikur, 21 cm á hæð, úr silfri, að hluta gylltur. Kaleikur þessi á sér langa og viðburðarríka sögu, segir í kynningarbæklingi um Grundarkirkju, segir í frétt Vikudags.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka