Töluvert hefur borið á dauðum lunda í Knarrarnesi sem er hluti af eyjaklasa út af Mýrum í Borgarfirði. Mikið er af mink og tófu í eyjunni sem herja á lundann og hafa nú þegar drepið marga fugla.
Rúnar Ragnarsson, einn af eigendum Knarrarness, segir í Morgunblaðinu í dag, að það sé orðið alltof mikið af mink í eyjunni. Hann segir að sveitarstjórnin í Borgarbyggð hafi brugðist lögbundnu hlutverki sínu sem felist í því að halda mink og annarri óværu í skefjum. Sveitarfélagið hafi skorið alltof mikið niður í þessum málaflokki og nú sé ástandið orðið óviðunandi. Því sé löngu tímabært að fá þetta mál í umræðuna.