Á Björtum dögum um helgina var afhjúpaður minnisvarði tileinkaður Friðriki Bjarnasyni tónskáldi en í ár eru liðin 50 ára frá andláti Friðriks. Það eru forsvarsmenn Karlakórsins Þrasta sem eiga heiðurinn af minnisvarðanum en hann var settur upp við Hafnarfjarðarkirkju í samráði við Hafnarfjarðarbæ.
Friðrik Bjarnason var tónskáld og kennari og sá maður sem setti mestan svip á tónlistarlíf í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar. Hann varð eitt kunnasta og vinsælasta tónskáld íslensku þjóðarinnar á sínum tíma, samdi um 200 sönglög. Þeirra á meðal eru Hafið bláa hafið og Fyrr var oft í koti kátt.
„Þótt allir þekki Hafið bláa hafið og Fyrr var oft í koti kátt þá er eitt lag okkur Hafnfirðingum þó kærara en textann samdi kona Friðriks, Guðlaug Pétursdóttir. Þetta er að sjálfsögðu hátíðarsöngur Hafnfirðinga, Hafnarfjörður, sem nú er betur þekktur undir heitinu Þú hýri Hafnarfjörður. Ljóð og lag var gefið Þröstum á 25 ára afmæli kórsins,“ segir í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Friðrik Bjarnason stofnaði einnig Karlakórinn Þresti sem á þessu ári fagna hundrað ára afmæli kórsins og því vel til fundið að minnast Friðriks á þeim stóru tímamótum.