Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segist ekki gera athugasemdir við ef stjórnvöld vilja endurskoða embættið með það að markmiði að flýta afgreiðslu mála, en hún segist gera ráð fyrir að það feli í sér lagabreytingu. Ásta Sigrún segir margar ástæður fyrir því að afgreiðsla mála taki langan tíma.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra út í skuldamál heimilanna á Alþingi í dag. Bæði hann og Jóhanna gerðu langan afgreiðslutíma mála hjá umboðsmanni skuldara að umtalsefni.
„Varðandi umboðsmann skuldara þá hefur verið settur mikill mannskapur og miklir fjármunir í að fara yfir þau mál, sem við töldum vera mjög mikilvægt. En ég verð að segja að það hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum hve hægt og seint gengur að klára mál á þeim vettvangi og það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að greiðsluaðlögunin og sérstaka greiðsluaðlögunin skuli ekki skila sér hraðar inn. Ég veit að hún er ekki fljótvirk, en hún á að skila sér vel til þeirra sem geta nýtt hana. Ég tel fulla ástæðu til þess að endurskoða starf umboðsmanns og hvort megi endurskipuleggja það með einhverjum hætti,“ sagði Jóhanna.
Í ágúst verða tvö ár liðin frá því embætti umboðsmanns skuldara var stofnað. Embættið sinnir alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna. Það tekur við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og fleira. Umfangsmesta verkefnið er hins vegar að veita aðstoð við gerð samninga um greiðsluaðlögun.
Yfir 4.000 umsóknir hafa borist embættinu um greiðsluaðlögun. Þar af er búið að afgreiða 800 mál og um 1.800 mál eru hjá umsjónarmönnum sem sjá um að semja við lánardrottna og útbúa samninga um niðurfellingu skulda. Allur kostnaður við vinnu umsjónarmanna er greiddur af umboðsmanni skuldara og er það raunar stærsti útgjaldaliður embættisins.
Ásta Sigrún segir að þetta úrræði sé nýtt og það hafi komið upp ýmis álitamál við túlkun laganna. Mörg þessara mála séu flókin. Við úrlausn mála verði embættið að fara eftir lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga en lögin kveði á um að mál fari í ákveðinn feril. Taka verði tillit til mótmæla frá kröfuhöfum og ýmislegt fleira geti tafið. Hún segir að ekki megi gleyma því að þetta sé einstaklingsmiðað úrræði. Sum málin kalli á sölu fasteigna sem geti verið tímafrek.
Ásta Sigrún segir að embættið sinni líka eftirliti með umsjónarmönnum og eftirliti með öllum greiðsluaðlögunarsamningum. Hún segir dæmi um að máli séu tekin af umsjónarmönnum ef þau dragist óeðlilega hjá þeim.
„Ég vildi svo sannarlega að þessi mál tækju skemmri tíma og við erum alla daga að reyna að flýta málum eins og hægt er. Það má hins vegar ekki gleyma því að vandinn er gríðarlegur og verkefnið er því mjög stórt,“ segir Ásta Sigrún.