Vonast eftir samkomulagi í dag

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn

Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sagði á Alþingi í dag að hún vonaðist til þess að forystumenn stjórnmálaflokkanna ættu eftir að setjast niður í dag og reyna að komast að samkomulagi um það með hvaða hætti væri hægt að ljúka þinginu. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, tók undir það.

Ásta Ragnheiður brást þar við fyrirspurn frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um það með hvaða hætti forseti Alþingis hefði hugsað sér að störf þingsins yrðu á næstunni. Ragnheiður Elín sagði ljóst að ekki væri hægt að komast að neinu samkomulagi um lok þingsins á meðan ríkisstjórnin héldi fast við það að klára ýmis stór og umdeild mál sem komið hefðu seint inn í þingið og hefðu engan veginn hlotið nægjanlega umræðu á Alþingi.

Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðunni og gengu ásakanir á víxl um það hverjum væri að kenna að áætlanir um þinglok hefðu ekki gengið eftir og að mörg mál væru enn óafgreidd í þinginu. Þingi átti samkvæmt áætlun að ljúka fyrir síðustu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert