Fagnaði brotthvarfi Summa

Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður.
Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs á Alþingi í dag og fagnaði fréttum af því að Timo Summa, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, væri á förum frá landinu og að embættið hefði verið auglýst laust til umsóknar. Vísaði hún í því sambandi til fréttar á vefnum Evrópuvaktinni.

Sagði hún að róður þeirra sem vildu Ísland í ESB hefði verið erfiður hér á landi og tengdi brotthvarf Summa við það. Rifjaði hún upp að sendiherrann hefði verið gagnrýndur harðlega fyrir afskipti af umræðunni um hugsanlega aðild Íslands að sambandinu og hefðu bæði hann og Evrópustofa meðal annars verið sökuð um að brjóta gegn íslenskum lögum í þeim efnum um starfsemi sendiráða.

Í frétt Evrópuvaktarinnar segir að auglýsing um að sendiherraembættið á Íslandi væri laust hefði verið birt í apríl innan ESB. Catherine Ashton, utanríkismálastjóri ESB, muni eiga síðasta orðið um nýjan sendiherra sem verði valinn úr hópi embættismanna sambandsins eða úr hópi manna sem ríkisstjórnir einstakra aðildarríkja þess tilnefna.

Þá er rifjað upp að Summa hafi verið sendiherra hér á landi frá árinu 2009 og hafi nú gegnt embættinu í þann tíma sem þyki eðlilegur samkvæmt reglum ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert