Tekjulítill en skuldaði 145 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is / Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Stafi lífeyrissjóð af kröfu konu sem krafðist þess að lánsveð sem hún veitti yrði ógilt. Maðurinn sem fékk lánið var með litlar tekjur en hann skuldaði árið 2008 rúmlega 145 milljónir.

Konan veitti árið 2008 manninum lánsveð í íbúð sinni, en hann fékk 17 milljónir að láni hjá Stöfum.

Málið var höfðað á þeirri forsendu að lífeyrissjóðurinn hefði vanrækt svo verulega þær skyldur sem hvíla á sjóðnum sem lánveitanda að ekki sé unnt að byggja á veðleyfinu. Lögmaður konunnar benti á að hún væri eldri kona sem hefði ekki sérþekkingu eða menntun á sviði fjármála eða lánveitinga og hefði ekki haft möguleika á að komast að erfiðri stöðu lántakans.

Í dómnum kemur fram að þegar lánið var veitt var lántakinn á 26. aldursári en hafði nánast engar reglulegar mánaðartekjur. Hann hafði engu að síður áður fjármagnað með lántökum kaup á tveimur bifreiðum og tveimur fasteignum. Samkvæmt skattframtali fyrir tekjuárið 2008 voru skuldir hans alls orðnar 145.311.770 krónur. Maðurinn var með 2,4 milljónir í árstekjur 2006, um hálfa milljón 2007 og um hálfa milljón árið 2008.

Lögmaður konunnar taldi að „ótrúlegt [megi] teljast að svo ungum manni hafi tekist að stofna til svo umfangsmikilla skulda, ekki síst þegar horft sé til þess að hann hafði lágar tekjur og var ungur að árum“.

Lögmaðurinn taldi að lífeyrissjóðnum hefði borið að kanna fjárhagsstöðu mannsins áður en hann fékk lánið.

Í dómnum kom fram að allir sem greiða í Stafi lífeyrissjóð ættu rétt á láni úr sjóðnum. Maðurinn hafi uppfyllt lánareglur sjóðsins. Hann hafði greitt iðgjöld til sjóðsins, hann var ekki á vanskilaskrá og hafði staðið í skilum með annað lán sem hann hafði tekið hjá lífeyrissjóðnum. Manninum var hins vegar aldrei gert að fara í greiðslumat.

Í dómnum segir að konan hafi með undirritun sinni heimilað manninum að veðsetja íbúð sína. Í yfirlýsingu sem hún undirritaði er staðlaður texti þar sem segir að hún hafi kannað fjárhagsstöðu lántakanda og kynnt sér hæfi hans til að endurgreiða lánið. Dómarinn taldi því ekki tilefni til að verða við kröfu konunnar.

Fram kemur í dómnum að lánið sé í vanskilum og ljóst sé að Stafir lífeyrissjóðir kunni að óska eftir sölu eignarinnar verði ekki staðið í skilum með lánið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert