Vegið að kjörum sjómanna og kjarasamningar settir í uppnám

Áhafnir Jóns Kjartanssonar SU 111, Aðalsteins Jónssonar SU 11 og Hafdísar SU 220 mótmæla harðlega kvótafrumvörpum ríkisstjórnarinnar og telja að þau vegi alvarlega að kjörum sjómanna og setji kjarasamninga þeirra í uppnám.  

Fram kemur í yfirlýsingu frá áhöfnunum, að frumvörpin skapi óvissu, sundrung og muni hafa neikvæð áhrif á laun sjómanna og annars starfsfólks í sjávarútvegi um allt land. 

„Við í áhöfnum Jóns Kjartanssonar, Aðalsteins Jónssonar og Hafdísar viljum benda hæstvirtum ráðherrum og þingmönnum á að við og okkar fjölskyldur erum líka hluti af íslensku þjóðinni – við höfum okkar lifibrauð af því að veiða fisk, við erum atvinnumenn í þeirra grein.  Við munum aldrei sætta okkur við að í nafni „félagslegs réttlætis“ verði störf okkar gerð að engu og kjör okkar rýrð – einungis til að færa einhverjum öðrum!

Er það „félagslegt réttlæti“ og nýliðun að hafa af okkur atvinnu og gefa til þeirra sem sumir hafa selt sig út úr kerfinu allt að þrisvar sinnum en veiða nú frítt í boði ríkisstjórnar hinna vinnandi stétta?

Styðjum við heilshugar aðgerðir útvegsmanna um allt land – enda ekki vanþörf á að kynna málin fyrir öllum hlutaðeigendum og skorum um leið á stjórnvöld að draga frumvörpin til baka, setjast niður og ná sáttum við sjómenn, fiskverkafólk og aðra sem eiga lífsafkomu sína undir veiðum og vinnslu,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert