Dr. Páll fékk hvatningarverðlaun

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra afhenti Páli Jakobssyni verðlaunin.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra afhenti Páli Jakobssyni verðlaunin.

Dr. Páll Jakobsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands, tók í dag við hvatningarverðlaunum Vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2012 úr hendi forsætisráðherra.

Verðlaunin eru veitt ungum vísindamanni sem þykir skara fram úr og vera líklegur til afreka í rannsóknum og nýsköpun í íslensku samfélagi.

Verðlaunin voru veitt á Grand Hóteli í Reykjavík og sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra meðal annars er hún afhenti Páli verðlaunin: „Í störfum sínum hefur Páll sýnt að hann er frábær vísindamaður sem náð hefur langt á alþjóðavettvangi. Hann hefur sýnt sjálfstæði og frumkvæði og byggt upp mikilvægan alþjóðlegan samstarfshóp þar sem hann gegnir lykilhlutverki. Hann er jafnframt góð fyrirmynd nemenda og samstarfsmanna. Það er einróma álit dómnefndar hvatningarverðlaunanna að Páll Jakobsson uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2012.“

Dr. Páll Jakobsson er 35 ára. Hann lauk BS-prófi í eðlisfræði við Háskóla Íslands árið 1999. Hann hélt til framhaldsnáms að því loknu við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan doktorsprófi í stjarneðlisfræði árið 2005.

Páll tók við starfi dósents í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands árið 2008 og varð prófessor árið 2010, þá einungis 33 ára gamall. Páll hefur styrkt mjög alþjóðlegt tengslanet Háskóla Íslands á sviði rannsókna í stjarneðlisfræði. Nefna má að alþjóðlegur samstarfshópur á þessu sviði, þar sem Páll er lykilmaður, hefur fengið aðstöðu og aðgang að stærstu geimsjónaukum veraldar, m.a. Hubble–geimsjónaukanum, til rannsókna og mælinga, segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert