Farþegaskipið Ventura er í jómfrúferð sinni til Íslands og er væntanlegt að Skarfabakka í Sundahöfn klukkan átta í fyrramálið. Ventura er 116.017 brúttótonn og næststærsta skemmtiferðaskipið sem kemur til landsins í sumar.
„Þetta er mikið skip,“ segir Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, en það var tekið í notkun 2008, tekur um 3.100 farþega í tveggja manna klefum á 15 hæðum auk þess sem 1.239 manns eru í áhöfn. Í skipinu eru meðal annars fjórar sundlaugar, æfingasalur, 12 veitingahús og kvikmyndasalur/leikhús sem tekur 785 manns í sæti.
Ágúst segir að þjónusta við skemmtiferðaskipin og farþegana sé í föstum skorðum. Margir noti daginn og fari í ferðir þar sem „Gullni hringurinn“ – Þingvellir, Geysir og Gullfoss – og Bláa lónið séu vinsælustu staðirnir.