Óvissa um framtíð evrusvæðisins seinkar afnámi gjaldeyrishafta og eru teikn á lofti um að gengi krónu veikist frekar á haftatímanum.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag telur Styrmir Guðmundsson, sjóðsstjóri hjá eignastýringarfyrirtækinu Júpíter, að umrótið í Evrópu geti haft „afdrifaríkar afleiðingar“ fyrir áætlanir um að afnema höftin.
Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, tekur undir með Styrmi að langt sé í afnám hafta og að útlit sé fyrir að gengi krónu muni veikjast. Það muni hækka verðtryggðar skuldir og hafa önnur neikvæð áhrif. Spáir Ingólfur því að höftin verði í mörg ár enn.
Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri Seðlabanka Íslands, segir að eftir því sem kreppan á evrusvæðinu dragist á langinn því meiri líkur séu á að hún hafi neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Viðbúið sé að gengi krónu gefi eftir ef fiskverð lækkar vegna kreppunnar í Evrópu.