Flug Icelandair frá Akureyri hefst í dag

Frá Akureyrarflugvelli.
Frá Akureyrarflugvelli. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í dag, fimmtudaginn 7. júní, flýgur Icelandair fyrsta flug sitt frá Akureyri til Keflavíkur sem gerir norðanmönnum kleift að komast nánast beina leið til helstu áfangastaða Icelandair í Evrópu og Bandaríkjunum. Viðskiptavinir Icelandair bóka flugið hjá Icelandair og innrita sig alla leið á áfangastað. Flogið verður fjórum sinnum í viku til 27. ágúst, á mánudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum, og tvisvar í viku eftir það til 30. september á fimmtudögum og sunnudögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Gert er ráð fyrir að um 2.500 farþegar fljúgi þessa leið í sumar og að stærstur hluti þeirra, um 80%, verði erlendir ferðamenn sem taldir eru nær hrein viðbót við þá ferðamenn sem fyrir eru. Búist er við því að Danir, Bretar, Svíar og Þjóðverjar verði fjölmennastir í hópi þessara ferðamanna.

Tenging við helstu áfangastaði Icelandair

Brottför frá Akureyrarflugvelli verður klukkan 14.30 og lending á Keflavíkurflugvelli klukkan 15.20. Tímasetningin gerir það að verkum að fjölmargir áfangastaðir Icelandair liggja vel við þessu tengiflugi, til dæmis London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel, Stokkhólmur og Osló, auk þess sem það eru tengingar á ýmsa áfangastaði í Norður-Ameríku.

Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til Íslands og frá og mun félagið leigja Fokker 50-flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.

 Akureyri verður alþjóðlegur áfangastaður

„Það er spennandi að bæta Akureyri sem nýjum áfangastað inn í leiðakerfið okkar og tengiflugið sem fer í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með þessum hætti erum við að opna nýja leið fyrir ferðamenn frá fjölmörgum öðrum borgum í leiðakerfi okkar til Akureyrar. Akureyri opnast í bókunarkerfum um allan heim sem áfangastaður Icelandair og við teljum okkur vera að færa Akureyri og perlur Norðurlands nær erlendum ferðamönnum og styrkja þannig undirstöður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi,” segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í fréttatilkynningu.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði þegar tilkynnt var um flugið síðasta haust að Akureyringar fögnuðu allri uppbyggingu í ferðaþjónustu á Íslandi og sérstaklega á Akureyri og Norðurlandi. „Það felast mikilvæg tækifæri í því að Akureyri og Akureyrarflugvöllur tengist bókunar- og leiðakerfi Icelandair. Akureyri og Akureyrarflugvöllur verður sýnilegri sem áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn og í því eru tækifæri til frekari uppbyggingar og markaðssetningar svæðisins,“ sagði Eiríkur og lagði áherslu á að tenging Akureyrar- og Keflavíkurflugvallar drægi síður en svo úr mikilvægi Reykjavíkurflugvallar og staðsetningar hans í Vatnsmýrinni fyrir innanlands- og sjúkraflug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert