Túlkun á siðareglum fráleit

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn er ekki sammála túlkun Einars Arnar Benediktssonar á siðareglum borgarfulltrúa. Hún setur spurningarmerki við skilning hans á þeim.

„Ég er í vinnunni frá 9 til 5 og þegar ég kem heim þá er ég ekki kjörinn fulltrúi,“ sagði Einar Örn Benediktsson, kjörinn borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar, í samtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Ummælin lét hann falla eftir að hafa þegið ferð í boði WOW air.

Í siðareglum fyrir kjörna fulltrúa borgarinnar segir að þeir þiggi ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim, er leita eftir þjónustu borgarinnar, nema um sé að ræða óverulegar gjafir.

„Siðareglur borgarinnar, bæði fyrir borgarfulltrúa og starfsmenn borgarinnar, eru mjög skýrar hvað þetta varðar,“ segir Hanna Birna. „Þær kveða einfaldlega á um að slík fríðindi megi ekki þiggja. Þessar siðareglur höfum við samþykkt án þess að greina með nokkrum hætti á milli athafna okkar sem borgarfulltrúa og einstaklinga. Sé það skilningur meirihlutans að við getum sjálf ákveðið með einhverjum hætti hvenær við látum á reglurnar reyna sem einstaklingar þá þarf augljóslega að endurskoða gildandi siðareglur eða þá að einstaka borgarfulltrúar verði að segja sig frá þeim.“

Ábyrgðin hjá borgarstjóra

Hanna Birna svarar því, spurð út í eftirmál málsins, að meirihlutinn og borgarstjóri verði að svara því hvort viðkomandi túlkun sé almenn túlkun þeirra á siðareglunum eða hvort um sé að ræða túlkun eins borgarfulltrúa. „Borgarstjórinn í Reykjavík er æðsti embættismaður borgarinnar og hann á að tryggja að gildandi reglum sé fylgt og bregðast við sé það ekki gert. Jón Gnarr getur ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð.“

Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins.
Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka