56% telja sig illa upplýst um Evrópumál

Höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópusambandsins (ECB) í Frankfurt.
Höfuðstöðvar Seðlabanka Evrópusambandsins (ECB) í Frankfurt.

Rúmur helmingur Íslendinga telur sig ekki vel upplýstan um Evrópumál, eða 56%. Þrír af hverjum fjórum Íslendingum telja landa sína heldur ekki vera vel upplýsta um þau mál, ef marka má nýja Eurobarometer skoðanakönnun sem kynnt verður á málþingi í Háskólanum á Akureyri föstudaginn 8. júní.

Samkvæmt svörum þátttakenda í könnuninni telja fleiri Íslendingar sig vel upplýsta um Evrópumál en almenningur í löndum ESB gerir. Einnig að mun fleiri karlar en konur telji sig vel upplýsta um Evrópumál.

Annars mælir könnunin fjölmiðlanotkun almennt, svo sem hvernig fólk nálgast upplýsingar og í gegnum hvers lags miðla. Í ljós kemur til dæmis að Íslendingar eru Evrópumeistarar í notkun samfélagsmiðla því 54% svarenda í könnuninni nota þá daglega eða því sem næst. Að meðaltali notar fimmtungur almennings sér samfélagsmiðla í nyt daglega eða því sem næst, innan ESB-ríkjanna.

Á málþinginu á Akureyri verður rætt um fjölmiðlun á Íslandi og á meginlandi Evrópu í víðu samhengi. Þingið hefst klukkan 13 og stendur til 16.40. Veg og vanda að þinginu á Háskólinn á Akureyri, fimm ára brautskráningarárgangur í fjölmiðlafræði við HA og Evrópustofa. Málþingið er öllum opið.

 Dagskrá fylgir hér fyrir neðan en nánari upplýsingar veita þau Birgir Guðmundsson, dósent við HA, í síma 692 9573, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra Evrópustofu í síma 847 0052. Helstu niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér.

Fjölmiðlun á Íslandi og Evrópu

13:00 – 13:05  Setning, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, forstöðumaður kynningarsviðs Háskólans á Akureyri og fimm ára fjölmiðlafræðingur frá HA

13:05 – 13:10 Ávarp, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Evrópustofu

13:10 -13:30 Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri: Fjölmiðlar og umræðan um aðild að ESB

13.40 – 14:00 Markús Meckl, dósent við Háskólann á Akureyri: The accession process and the media: Iceland and Latvia

14:10 – 14:30 Kjartan Ólafsson, lektor við Háskólann á Akureyri: Íslensk fjölmiðlanotkun í evrópsku samhengi

14:40 -15:00 Kaffihlé

15:00 – 15:20 Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Menntasetrinu á Þórshöfn og fimm ára fjölmiðlafræðingur frá HA: Á vígvellinum eða í skúringum: kynjaðar myndir af stjórnmálamönnum í íslenskum dagblöðum


15:30 – 15.50 Birgir Guðmundsson: Hólfaskipt almannarými og horfið samtal: Fjölmiðlanotkun Íslendinga eftir aldri og búsetu  

16:00 – 16:40 Pallborð og spurningar úr sal. Stjórnandi: Dagmar Ýr Stefánsdóttir

Eurobarometer kannanir hafa verið gerðar af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins síðan 1973 og eru liður í því að kanna viðhorf almennings í aðildarríkjum ESB. Almenningur í umsóknarríkjum eins og Íslandi er einnig spurður álits. Til niðurstaðna kannananna er litið m.a. þegar mat er lagt á störf ESB og við ákvarðanatöku innan þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert