Ekki hlustað á foreldrana

Sólbakki Annar sameinaðs leikskóla undir nafni Björtuhlíðar er Sólbakki við …
Sólbakki Annar sameinaðs leikskóla undir nafni Björtuhlíðar er Sólbakki við Stakkahlíð. Þar verða yngri börn en eldri börnin í Hamraborg við Grænuhlíð. mbl.is/Ómar

Hópur foreldra sem á börn í leikskólunum Sólbakka og Hamraborg í Hlíðunum er ósáttur við fyrirhugaða aldursskiptingu í leikskólunum í haust, en þeir voru sameinaðir síðasta sumar undir nafninu Bjartahlíð.

Foreldrarnir eru einnig ósáttir við vinnubrögð leikskólastjórans og hvernig skólayfirvöld hafa tekið á umkvörtunarmálum þeirra. Telja þeir rök fyrir breytingunni ekki haldbær og fyrirvarann skamman. Gagnrýna þeir jafnframt samráðsleysi yfirvalda og skort á upplýsingum í tengslum við sameininguna og ákvörðun um aldursskiptingu. Ekkert hafi verið hlustað á þeirra gagnrýnisraddir og m.a. komið í veg fyrir að undirskriftalistar færu upp á veggi leikskólanna, til að gefa foreldrum kost á að lýsa skoðun sinni. Engin regla sé heldur uppi hjá borginni hvaða leikskólar megi aldursskipta börnum og hverjir ekki. Þá hafa foreldrarnir leitað til hverfaráðs Miðborgar og Hlíða en engin viðbrögð fengið þaðan eða stuðning.

Ekki á sömu torfunni

Sólbakki er við Stakkahlíð, við hliðina á húsi Blindrafélagsins, og þar eiga yngri börnin að vera. Hamraborg er við Grænuhlíð, skammt frá Suðurveri, og þar verða eldri börnin vistuð. Samanlagt eru börnin um 135 talsins. Í nokkrum tilvikum munu foreldrar eiga börn í báðum skólunum og hefur þeim verið boðið að hafa systkinin saman á Hamraborg næsta haust. Hafa flestir foreldranna þegið þetta boð.

Talsmaður foreldra, Jónas Vilhelmsson, segir athyglisvert að fjölskyldurnar hafi langflestar valið að hafa bæði börnin á Hamraborg þrátt fyrir fagleg rök leikskólastjóra um gildi aldursskiptingar. Þetta boð yfirvalda sé hins vegar aðeins í gildi næsta haust, aldursskiptingin sé að öðru leyti komin til að vera.

Jónas segist hafa komist að því í gönguferðum með þriggja ára syni sínum að á milli Sólbakka og Hamraborgar er 10-15 mínútna gangur. Aldursskiptingu hafi verið komið á í öðrum leikskólum í Reykjavík, sem og á Seltjarnarnesi, en á þeim og Björtuhlíð sé sá reginmunur að þeir séu nánast á sömu torfunni.

Að sögn Jónasar hafa foreldrar reynt að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við leikskólastjóra Björtuhlíðar. Þar hafi ekki verið hlustað á þeirra rök og í lok mars sl. var óskað eftir fundi með yfirmönnum skóla- og frístundasviðs borgarinnar. Sá fundur komst á í lok apríl og þar var m.a. ákveðið að koma á fundi með skólastjórnendum, foreldraráði og fulltrúum frá sviðinu. Að sögn Jónasar ætlaði sviðið einnig að standa fyrir könnun hjá foreldrum Björtuhlíðar um afstöðuna til aldursskiptingar. „Við vorum mjög ánægð með þessar áætlanir og fengum loforð um að við myndum heyra frá sviðinu aftur eftir rúma viku. Þessi tímamörk stóðust því miður engan veginn,“ segir Jónas en ítrekað var þrýst á um einhver svör frá borginni. Þau fengust ekki fyrr en 23. maí, þess efnis að skóla- og frístundasvið styddi ákvörðun og vinnubrögð leikskólastjórans. Loforð um að gera könnun meðal foreldra var ekki efnt.

Síðan fékkst fundur með Oddnýju Sturludóttur, formanni skóla- og frístundaráðs, 1. júní sl. en Jónas segir þessi fundahöld engu hafa skilað þar sem áform um aldursskiptinguna munu standa. Bent hafi verið á að foreldrar geti kært málið til innanríkisráðuneytisins en Jónas segir foreldrana hafa takmarkaðan áhuga eða getu til þess, sér í lagi vegna nýlegs úrskurðar ráðuneytisins þar sem kæru á sameiningu leik- og grunnskóla í borginni var hafnað.

„Við gerðum okkur hins vegar ákveðnar vonir um að Oddný myndi skilja okkar sjónarmið,“ segir Jónas og vísar þar til fyrri ummæla Oddnýjar í fjölmiðlum á sínum tíma um systkinaforgang í leikskólum. Þannig lét Oddný hafa eftir sér á visir.is: „Á það hefur verið bent að það er harla ósanngjarnt að foreldrar keyri með lítil börn á tvo mismunandi staði í borginni. Það er í senn mikið álag á börnin og fjölskyldulífið í heild, auk þess sem það er ekki umhverfisvænt.“

„Ekkert hlustað á okkur“

Jónas segist vilja koma þeirra sjónarmiðum á framfæri opinberlega, þannig að foreldrar leik- og grunnskólabarna í Reykjavík sjái hvernig borgaryfirvöld taka á umkvörtunarefnum foreldra.

„Eftir á að hyggja var engin alvara á bak við það hjá borginni að finna lausnir í málinu eða hlusta á okkar sjónarmið. Við höfum verið dregin á asnaeyrunum,“ segir Jónas en tekur fram að foreldrarnir hafi ekkert út á starfsfólk Björtuhlíðar að setja. Almenn ánægja sé með störf þeirra og börnunum líði vel. Leikskólar séu hins vegar í grunninn þjónustustofnanir og foreldrar séu ekki skyldugir til að setja börnin í leikskóla líkt og í grunnskóla. Það sé ekki góð þjónusta af hálfu borgarinnar ef foreldrar þurfi að leita út fyrir hverfið til að koma börnunum í einn og sama skólann.

„Mér finnst mikilvægt að foreldrar í Reykjavík átti sig á því hvers konar vinnubrögð eru viðhöfð hjá borginni. Það liggur við að það taki því ekki að berjast fyrir einhverjum málum því það skiptir engu máli. Skilaboðin eru skýr; það er ekkert hlustað á okkur. Þetta er íbúalýðræðið sem Jón Gnarr talar svo mikið um. Við gætum alveg eins sagt við hann: Leyfðu okkur að kjósa um hundagerði á Klambratúninu en eyðileggðu leikskólana okkar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka