Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir aðstæður hafa breyst mikið innan Evrópusambandsins að undanförnu og að sambandið hafi tekið talsverðum breytingum frá því að Ísland sendi inn aðildarumsókn.
Birgir veitti því sérstaklega athygli á Alþingi í dag að Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, líti á það sem kost að þróunin innan Evrópusambandsins muni leiða til aukins samruna.
„Þéttara bandalag, þar sem meira vald er hjá miðstjórnarvaldinu og minna hjá þjóðríkinu. Það er mjög gott að þetta sjónarmið komi fram vegna þess að stundum er látið eins og Íslendingar geti valið af matseðli þegar kemur að því að fara inn í Evrópusambandið. Tekið það sem þeim hentar og sleppt því sem þeim finnst óþægilegt,“ sagði Birgir og bætti við að það svigrúm minnkaði eftir því sem valdið ykist í Brussel.
„En það er ágætt að talsmenn, eða a.m.k. þessi ágæti talsmaður Samfylkingarinnar hér í þessari umræðu, viðurkennir að markmiðið er ekki að fara inn í Evrópusambandið eins og það er í dag heldur Evrópusambandið eins og það virðist vera að þróast: Með auknu fullveldisframsali, með aukinni miðstýringu frá Brussel og með minna valdi þjóðríkjanna.“