Hægri grænir, flokkur fólksins, segjast í ályktun harma „lúalega aðför stjórnvalda og alþingismannsins Lilju Mósesdóttur gegn fólkinu og fyrirtækjum í landinu með setningu laga nr. 151/2010, svokallaðra „Árna Páls-laga“.“
Þá harmar flokkurinn seinkun á uppgjöri 60.000 einstaklinga og fyrirtækja vegna ólöglegra gengislána um eitt og hálft ár. Loks segjast Hægri grænir harma það að meira en 15 vikur séu liðnar síðan gengislánadómur féll í Hæstarétti og engir endurútreikningar komnir.
„Með lagasetningunni tóku stjórnvöld og alþingismaðurinn Lilja Mósesdóttir sér stöðu með erlendum vogunarsjóðum gegn fólkinu og fyrirtækjum í landinu, og er þetta í fyrsta skipti í lýðveldissögunni sem slík afturvirk lög hafa verið sett. „Árna Páls-lögin“ hafa seinkað uppgjöri 60.000 einstaklinga og fyrirtækja um endurgreiðslu ólöglegra gengislána um eitt og hálft ár og lítur út fyrir að uppgjör dragist um nokkur misseri í viðbót,“ segir í ályktuninni.
Þá harmar flokkurinn þá töf sem orðið hefur á endurgreiðslu bankanna til íslenskra heimila og fyrirtækja. Nú séu meira en 15 vikur liðnar síðan gengislánadómur féll í Hæstarétti og engir endurútreikningar komnir.
„Stjórn Hægri grænna, flokks fólksins ályktar að stjórnvöldum beri að íhlutast strax um fullnustu gengislánadóms, neytendum í hag, og beita öllum ráðum til þess að yfir 60.000 einstaklingar og fyrirtæki fái til baka frá bönkunum það sem þeim ber,“ segir í ályktuninni.