Hafrannsóknastofnunin leggur til að þorskkvóti fiskveiðiársins 2012-2013 verði 196 þúsund tonn, en aflamarkið á síðasta ári var 177 þúsund tonn. Stofnunin leggur til að kvóti á ýsu verði 18 þúsund tonnum minni í ár en í fyrra. Þetta kemur fram í skýrslu Hafró um aflahorfur.
Þorskaflinn var 172 þúsund árið 2011 og áætlar Hafró að aflinn verði 177 þúsund tonn á þessu ári.
„Þorskstofninn hefur ekki verið stærri um árabil. Hrygningarstofninn hefur verið of lítill en nú er hann að nást verulega upp,“ sagði Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, þegar skýrslan var kynnt í Hörpu nú fyrir stundu.