Öfgar, sögulegt þjóðarminni og vandi lýðræðisins

Geoff Eley, prófessor við Michigan-háskóla, telur að þjóðfélagssátt áratuganna eftir …
Geoff Eley, prófessor við Michigan-háskóla, telur að þjóðfélagssátt áratuganna eftir stríð hafi molnað niður og nú hafi skapast tómarúm, sem bjóði hættunni á öfgum heim. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Geoff Eley sagnfræðingur hefur rannsakað bæði fasisma og vinstri hreyfingar í Evrópu í áratugi auk þess sem hann hefur skrifað um hið sögulega minni þjóða og hvernig það mótast. Hann flytur í dag fyrirlestur undir heitinu The Past Under Erasure: History, Memory and the Contemporary eða Tortíming fortíðarinnar: sagan, minnið og samtíminn  í stofu 132 í Öskju kl. 13.15 í dag, föstudag, á 4. Íslenska söguþinginu, sem haldið er við Háskóla Íslands dagana 7. til 10. júlí. Hann telur að eftir síðari heimsstyrjöld hafi myndast samfélög í Evrópu, sem byggðust á andstöðunni við fasisma og höfðu þá sérstöðu að almenningur taldi sig eiga hlutdeild í þeim. Nú hafi hins vegar orðið rof þar sem gap hafi myndast milli hinna hefðbundnu stjórnmála og almennings og verði ekkert að gert gæti það orðið gróðrastía öfgaafla og pólitísks ofbeldis.

„Ég hef haft áhuga á þessu vandamáli í 40 ár,“ segir Eley. „Mín fyrstu verk snerust um forsendur fyrir fasisma í Þýskalandi. Ég byrjaði á að fjalla um umbreytingu þýskra stjórnmála fyrir fyrri heimsstyrjöld, hvernig róttækni gróf um sig í þýskri pólitík, sem lagði grunninn að því sem gerðist við kringumstæðurnar í lok styrjaldarinnar og við þá pólitísku sundrung, sem tengjast þeim, og leiddi til nýrra stjórnmála, sem við köllum fasisma.“

Eley hristi upp í viðteknum hugmyndum með sagnfræðiskrifum sínum. „Þessi skrif áttu hlut að því ásamt bók, sem ég skrifaði með David Blackbourn á svipuðum tíma og heitir The Peculiarities of German History, sem var allsherjar gagnrýni á hina svokölluðu sérleiðarkenningu um Þýskaland. Undanfarin ár hef ég leitað aftur á þessar slóðir og er að ljúka annarri bók, sem heitir Genealogy of Nazism, þar sem ég skoða mínar forsendur og kanna hvað þarf endurskoðunar við í ljósi þeirra rannsókna, sem gerðar hafa verið í millitíðinni, einkum undanfarin 10 til 15 ár og þá sérstaklega í Þýskalandi.

Jafnframt hef ég verið að hugsa um fasisma sem slíkan, sérstaklega með tilliti til aðstæðna um þessar mundir.“

Paul Krugman hagfræðingur sagði í dálki sínum í The New York Times í maí að fall evrunnar myndi vera mikill ósigur fyrir hið víðtækara evrópska verkefni að færa álfu með hræðilega sögu frið, velsæld og lýðræði: „Það myndi einnig hafa sömu áhrif og fall aðhaldsstefnunnar í Grikklandi, grafa undan trúverðugleika hins pólitíska meðalhófs og efla öfgamenn.“

Sátt í upplausn

„Það er nokkuð til í þessu,“ segir Eley. „Burtséð frá kreppu evrunnar er hin pólitíska sátt, sem myndaðist með mjög skilvirkum hætti eftir 1945 og stóð þar til í upphafi áttunda áratugarins, í upplausn. Eftir sjöunda áratuginn hefur hún verið skrúfuð í sundur og í staðinn hefur komið það sem við köllum nú nýfrjálshyggju, sem um tíma leiddi af sér nýja sátt, en grunnur hennar var mun ótryggari.“

Eley segir að veðjað hafi verið á einkaneyslu, niðurrif hinna gömlu innviða ekki bara velferðarríkisins og hagstjórnar í anda Keynes, heldur einnig hins víðtækari þjóðfélagssáttmála, sem skipan mála eftir stríð var byggð á og höfðu stéttarfélög í miðdepli.

„Upplausn þessa fremur sterkbyggða virkis í nafni einkavæðingar, markaðsafla, þessara hugmynda, sem urðu ráðandi, um það hvað fær samfélagið til að virka, hefur skilið eftir sig verulega óreiðu," segir hann. „Það opnar leiðina fyrir annars konar pólitíska hugsun og virkni og gerir að verkum að hægt er aðhyllast hugmyndir, sem við kennum við öfgar. Áhrifamesta afleiðing hnattvæðingarinnar, hinn haftalausi, þverþjóðlegi vinnumarkaður, spilar inn í þetta. Þar hafa verkamenn ekki lengur það öryggi, sem sáttmálinn eftir seinna stríð veitti. Það skapar síðan alls kyns kvíða í kringum þjóðernisvitund og brostnar væntingar um samstöðu í samfélaginu.

Ég held að vandinn í kringum þessar breytingar séu aflvaki andúðarinnar á útlendingum og innflytjendum, kveikja útlendingaótta og kynþáttahyggju og hafi valdið virkni á hinum róttæka hægri armi, sem hlýtur uggvekjandi almennan hljómgrunn um þessar mundir. Hér er enn um minnihluta að ræða, en hann er hávær og nýtur mun meira fylgis í kosningum, en maður hafði talið líklegt, hvort sem það er í Frakklandi, Ítalíu, Hollandi, mögulega í Grikklandi. Skapast hefur pólitískt andrúmsloft þar sem gerlegt verður fyrir pólitískar hreyfingar á borð við Þjóðfylkinguna í Frakklandi að gera sér vonir um í kringum 15% fylgi í kosningum. Sú staða er mjög ólík því sem við höfum átt að venjast.“

Andstaðan við fasisma

Eley bendir á að þetta sé þó ekki nýtt og hafi verið að byggjast upp á undanförnum tveimur áratugum og megi tengja efni fyrirlestrar hans í dag, sem ber heitið The Past Under Erasure: History, Memory and the Contemporary eða Tortíming fortíðarinnar: sagan, minnið og samtíminn.

„Ein leiðin til að átta sig á þessu er að hafa í huga áhrifaríkustu leiðirnar sem notaðar voru til að festa sáttina eftir heimsstyrjöldina síðari í sessi,“ segir hann. „Styrkur og stöðugleiki sáttarinnar í Vestur- og Norður-Evrópu var fólginn í því að fólk samsamaði sig ríkjunum, sem þróuðust eftir 1945. Í tilfelli Bretlands byggðist það augljóslega á samstöðunni í stríðinu og þeirri tilfinningu að allir hefðu snúið bökum saman í nafni hins góða málstaðar í stríðinu. Á meginlandi Evrópu kristallaðist það í andspyrnunni í stríðinu. Mér hefur alltaf fundist að það væri gott að bera saman samkomulagið eftir fyrra stríð og seinna stríð. Samkomulagið eftir fyrri heimsstyrjöld var frá upphafi á reist á veikum grunni og gliðnaði sundur. Hægt er að líta á tímann eftir 1918 í Evrópu sem útkomu raðar af þjóðernis- og lýðveldisbyltingum. Vandinn er sá að þær entust ekki. Um miðjan þriðja áratuginn eru þær farnar að hrynja og um miðjan fjórða áratuginn eru flest þessi lýðræðisríki horfin. Munurinn á þessu og stöðunni eftir seinni heimsstyrjöld er að almenningur fann hljómgrunn í þessum nýju ríkjum, en eftir 1918 ríkti mikil sundrung í hinu pólitíska andrúmslofti frekar en sátt.“

Eley kveðst telja að þessi sátt hafi að hluta náðst vegna pólitískrar andstöðu við fasisma, sem ekki væri aðeins ógn við lýðræðið heldur borgaraleg gildi og sómakennd og hefði verið svarað fullum hálsi og lagður að velli. En það var ekki aðeins andstaðan við fasisma, heldur einnig sú tilfinning um að nú mætti byggja heim mjög frábrugðinn þeim, sem var fyrir 1939.

„Þetta ferli lýðræðisvæðingar samfélagsins hafði þegar hafist á Norðurlöndum," segir hann. „En það var langt frá því að vera tilfellið annars staðar í Vestur- og Suður-Evrópu. Því hafði ekki aðeins tekist að sigra fasismann og stríðið, heldur hafði einnig tekist að yfirstíga það sem á vantaði á fjórða áratugnum, galla kerfisins, sem hafði brugðist. Þarna fór saman andstaðan við fasisma og félagslegar umbætur. Ég held að það hafi skapað hina víðtæku og lýðræðislegu hlutdeild almennings í sáttinni eftir seinni heimsstyrjöld og gert að verkum að hún stóð svo lengi, alveg til loka áttunda áratugarins. Síðan þá hefur þessi sátt verið tekin í sundur.“

Eley segir að Vestur-Þýskaland sé undantekning í þessum efnum. Þar varð skipan mála eftir stríð ekki til á forsendum and-fasisma.

„Tækifærið til þess var ekki gripið af ýmsum flóknum ástæðum, öndvert við Ítalíu. Í báðum þessum ríkjum urðu til heimatilbúnar fasistastjórnir. Á Ítalíu var fasistastjórnin hrunin 1943. Þar varð til mjög vinsæl and-fasísk hreyfing. Engin sambærileg andspyrna varð til í tilfelli Þýskalands þótt hinar svokölluðu antifa-nefndir yrðu til 1945, þá voru þær fljótt kæfðar af Rauða hernum í austri og bandamönnum í vestri. Möguleikinn á að til yrði með sama hætti andfasískt lýðræði eftir stríð í Vestur-Þýskalandi fékk aldrei að dafna. Vestur-Þjóðverjar þurftu að bíða til 1968. Í Vestur-Þýskalandi var þó engu að síður um að ræða svipaðan þjóðfélagslegan sáttmála eftir 1945.“

Baráttan um þjóðarminnið

Eley segir að frá tímabilinu 1989 til 1991 hafi staðið yfir barátta um þjóðarminnið, hvernig þjóðir muna söguna.

„Það var mikill ótti meðal vinstri manna og framsækinna hugsuða í Vestur-Þýskalandi um að í kjölfar sameiningar myndi íhaldssöm þjóðernishyggja sækja í sig veðrið á ný,“ segir hann. „Á tíunda áratugnum voru margar orrustur háðar um hið sögulega minni þjóðarinnar. Wehrmacht-sýningin á vegum Félagsrannsóknastofnunarinnar í Hamborg, sem Jan Philipp Reemtsma, erfingi tóbaksauðs af 68-kynslóðinni, kostaði, er þar mikilvægust. Stofnunin hefur kostað umfangsmiklar rannsóknir á kynþáttaríki nasista og byggðist á að sýna með ljósmyndum glæpi þýska hersins á austurvígstöðvunum og á Balkanskaganum. Hún var fyrst sett upp um miðjan tíunda áratuginn og gerði að engu þá staðhæfingu að SS-sveitirnar og öfgamenn nasista hefðu verið á bak við þjóðarmorðið á austurvígstöðvunum og aðra stríðsglæpi, en þýski herinn hefði verið saklaus. Þetta hleypti af stað miklum deilum. Sýningin var sett upp víða í Þýskalandi og Austurríki í um þrjú ár. Þetta er eitt dæmi um orrustuna um hið sögulega minni. Annað er deilan um bók Daniels Goldhagens, Hitler’s Willing Executioners.“

Eley segir að sýningin og bók Goldhagens hafi haft svipuð áhrif og það hafi ekki verið tilviljun að Goldhagen fékk lýðræðisverðlaunin, sem Reemtsma kostar, fyrir hana eða að heimspekingurinn Jürgen Habermas skyldi flytja ræðuna þegar þau voru veitt.

„Habermas var frá miðjum níunda áratugnum sá menntamaður í Þýskalandi, sam kalla má rödd samviskunnar í þessum efnum,“ rifjar hann upp. „Meðal margra mikilvægra ummæla hans er hin fræga tilvitnun um arfleifð helfararinnar: Lýðræði varð ekki mögulegt í Þýskalandi fyrr en og vegna Auschwitz. Habermas færði staðfastlega rök fyrir stjórnarskrárbundinni föðurlandsást. Það væri eina leyfilega föðurlandsástin í Þýskalandi, byggð á lýðræðislegum gildum, frekar en menningarlegri samsömun við þjóðina í dýpri þjóðmenningarlegum skilningi, og það hafi ekki orðið mögulegt fyrr en eftir 1945.“

Eley segir að deilurnar á tíunda áratugnum hafi síður en svo leitt til endurvakningar þjóðernishyggju, heldur staðfest nýju sáttina sem varð til eftir seinna stríð.

„Málinu er þó ekki lokið, það er ekki hægt að segja: Við unnum. Þvert á móti og deilurnar hafa haldið áfram alla tíð síðan. Því er enn opið hvernig hið sögulega minni verður umritað hvað varðar hin brýnu, pólitísku mál samtímans. Og reyndar held ég að óvissan sé aftur að aukast.“

Fjarlægðin við stríðið eykst

Ein ástæðan fyrir því er sennilega einnig sú að fjarlægðin við stríðið eykst. Í Þýskalandi krafðist 68-kynslóðin uppgjörs við arfleifð foreldra sinna frá stríðinu. Nú eru komnar kynslóðir, sem eru mun laustengdari þessari sögu.

„Þetta er eitt af því, sem ég fjalla um í fyrirlestrinum,“ segir Eley. „Ég fæddist 1949 og er því af 68-kynslóðinni, en jafnvel þótt hún sé að hluta fædd eftir að stríðinu lauk, er hún hluti af því. Stríðið var allt í kringum mig. Umræðan milli minnar kynslóðar og kynslóðar foreldra minna, sem oft var full af deilum og ágreiningi, jafnvel þótt eldri kynslóðin væri and-fasísk, var mjög mikilvæg í því að hún gat af sér ný form lýðræðislegra stjórnmála á áttunda áratugunum og út þann níunda. Þannig að samhliða sigri nýfrjálshyggju og eins konar nýrrar íhaldsstefnu, sem ég tel að séu tvær hliðar á sama peningi og á þá við Thatcher á Bretlandi, Reagan í Bandaríkjunum, Mitterrand í Frakklandi og Gonzales á Spáni, þótt hinir tveir síðastnefndu væru að nafninu til sósíalistar, varð til ný félagsleg hreyfing, sem náði að nýta byr áttunda áratugarins og birtist í græningjum og sósíalískum vinstri hreyfingum í Norður- og Vestur-Evrópu.

Augljóslega hafa þetta verið minnihlutahreyfingar, en haft hlutfallslega meiri áhrif en fylgið segir til um. Þess utan er ekki mikið eftir því að kommúnismi er bersýnilega horfinn, sömuleiðis sósíaldemókratar, nema að nafninu til. Þessar hreyfingar til vinstri við miðju eru þó mjög nærri henni, en þær eru mótvægi við veldi nýfrjálshyggjunnar, sem er mun lengra frá miðjunni. Hinn nýi Verkamannaflokkur á Bretlandi eða SPD (sósíaldemókratar) í Þýskalandi eru miðjuflokkar, nýfrjálshyggjan hefur fengið meira mótvægi í Svíþjóð og Noregi, en ekki í Danmörku. Þessar hreyfingar, sem ég lýsti áðan, eru helsta vonin um að halda megi aftur af þeim öflum, sem segja má að einkennist af tilhneigingunni til að breyta Evrópu í virki. Þetta eru þeir hópar, sem hafa hvað mesta tengingu við borgaralega aðgerðahyggju, sem ég tel að enn hafi áhrif í Evrópu. Hún er þess hins vegar ekki lengur umkomin að breyta þeim áhrifum í atkvæði vegna þess að gömlu flokkarnir eru horfnir.“

Vinstri flokkar voru vettvangur hugsjóna um aukið lýðræði og umbætur

Eley segir að einn af styrkleikum kommúnista- og sósíalistaflokkanna þegar þeim gekk hvað best og voru lýðræðislegastir hafi verið að þeir voru eins og segull fyrir hugsjónir um aukið lýðræði og umbætur.

„Þess vegna gátu þeir unnið kosningar,“ segir hann. „Þeir voru alltaf meira en bara sósíalista- og kommúnistaflokkar sem slíkir. Þegar þeim vegnaði hvað best söfnuðu þeir í kringum sig mörgu, sem vakti vonir um breytingar. Nú eru þeir horfnir og ekkert hefur komið í staðinn. Þess í stað hefur orðið uppbrot í flokkspólitíkinni, en umtalsverð gróska er utan hennar í borgaralegum aðgerðahreyfingum, sem hafa áhrif í borgum, hverfum eða ákveðnum málaflokkum. Fyrir mér er magnaðasta dæmið um þetta fjöldamótmælin gegn stríðinu 2003. Aldrei höfðu jafn margir fylkt liði á götum úti, en það skipti nákvæmlega engu máli. Það hefur orðið rof. Við höfum hina stofnanavæddu miðju ríkisins þar sem gömlu flokkarnir eru ennþá til án nokkurra tengsla við fjöldann eða fjölmennra flokksraða eins og áður voru. Þeir eru ekki lengur flokkar sem byggja á fjölda félaga. Hins vegar eru félagslegar hreyfingar og pólitískir aðgerðahópar og það er mjög óljóst hvernig leiða á þetta tvennt saman.“

Glatað lýðræðisbolmagn?

Eley beinir sjónum sínum að Íslandi í þessu samhengi: „Mér skilst að Ísland sé gott dæmi um þessi áhrif. Annars vegar eru almenn viðbrögð gegn því hvernig tekið var á fjármálakreppunni, sem náði hámarki í þjóðaratkvæðagreiðslunni [um Icesave]. Nú er ekki loku fyrir það skotið að stjórnin missi völd og hægri menn komist aftur til valda. Hér höfum við annars vegar kraftmikið en sundurlaust afl, en hins vegar gamla gengið, sem vill halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Kannski höfum við glatað hinu lýðræðislega bolmagni, sem áður var til staðar í hinu lýðræðislega stjórnskipulagi í skamman tíma eftir stríð og átti rætur í verkalýðshreyfingunni á þriðja áratugnum eins og ég færi rök að í bók minni Forging Democracy: The History of the Left in Europe, 1850-2000.“

Eley segir að á þeim tíu árum, sem liðin eru frá því að sú bók kom út, hafi hann enn sannfærst um að sögulega hafi á afmörkuðu tímabili í Evrópu frá 1880 til 1970 þegar ákveðnar hreyfingar með verkalýðshreyfinguna í brennidepli gátu - síðar meir sérstaklega á grundvelli reynslunnar frá fjórða og fimmta áratugnum - siðmenntað kapitalismann.

„Þar á ég við stjórnun þjóðhagkerfa í anda Keynes, skattlagningu til jöfnunar, velferðarríkið, verulega lýðræðisvæðingu ríkisins, nýjar stjórnarskrár, fyrirtækjahyggju þar sem stéttarfélög urðu gjaldgeng, að meta venjulegt vinnandi fólk að verðuleikum og svo framvegis. Eftir áttunda áratuginn hefur þetta verið afnumið kerfisbundið og nú erum við með vinnumarkað, þar sem regluverkið hefur verið lagt niður með róttækum hætti. Það nær til allra þeirra þátta, sem ég nefndi og hefur skapað nýtt félagslegt landslag. Og það er erfitt að ímynda sér að hægt sé að smíða eitthvað í námunda við þetta samfélag sjötta og sjöunda áratugarins og þó voru vandamál þess gríðarleg og ekki hægt að horfa fram hjá því að þau lifðu á restinni af heiminum. Nú kann ég þó að meta það, sem hefur glatast.“

Beint lýðræði

Eley telur að framtíðin hljóti að liggja í því að færa lýðræði til almennings. „Það var ein af grundvallarhugmyndum sjöunda áratugarins og auðveldara að ímynda sér beint lýðræði í litlu landi á borð við Ísland. Það er ógerningur að átta sig á því hvernig slíkt ætti að vera gerlegt í Bandaríkjunum af ýmsum ástæðum, en ekki síst stærðarinnar vegna. Athyglisverðustu dæmin um nýjar myndir lýðræðis eru í Suður-Ameríku. Þar eru umræður, sem gætu vísað veginn að því hvernig efla mætti þátttökulýðræði og beint lýðræði. Þar má nefna þátttökufjárlagagerð, sem stunduð hefur verið í borginni Porto Alegre í Brasilíu.“

Eley segir að þessi vandi lýðræðisins sé einnig kveikjan að áhuga sínum á fasisma. „Mér virðist að þegar stjórnskipunin bilar, eins og gerst hefur til dæmis í Bandaríkjunum og í minna mæli í Evrópu og hvorki er lengur hægt að koma á nógu mikilli sátt milli hinna ráðandi stétta né skapa nógu mikla almenna trú á kerfið, skapast sérlega hættulegar aðstæður. Þá byrjar fólk að hugsa utan ramma ásættanlegra stjórnmála. Þá skapast kringumstæður fyrir ofbeldi og ég held að það séu uggvekjandi vísbendingar um að við séum að nálgast þær aðstæður í Bandaríkjunum. Það sama held ég að eigi við í Evrópu, til dæmis Grikklandi. Ég held að það geti orðið ákveðin gliðnun í hlutum þjóðfélagsins, sem geti leitt til sundrungar þar sem hin gömlu pólitísku form hætta að virka og fólk gæti farið að snúast til pólitísks ofbeldis.“

Grikkland ber vitni óvissuástandinu um þessar mundir. Öryggissveitir verja þingið …
Grikkland ber vitni óvissuástandinu um þessar mundir. Öryggissveitir verja þingið í Aþenu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert