Innkaupastofnun og borgarlögmaður hafa staðfest að innkaupareglur borgarinnar voru brotnar þegar samið var við Samhjálp um rekstur gistiskýlisins fyrir karla að Þingholtsstræti 25. Ljóst er að um er að ræða meðvitað brot þar sem sviðið hafði skömmu áður samið við Rauðakross Íslands um rekstur gistiskýlis fyrir konur og þá fylgt innkaupareglum í hvívetna. Þetta kemur fram í bókun fulltrúa VG og Sjálfstæðisflokks sem lögð var fram á fundi í velferðarráði í gær.
Að mati velferðarráðsfulltrúa VG og Sjálfstæðisflokks er brotið alvarlegt þar sem ekki var auglýst eftir áhugasömum eins og vera ber. Full ástæða er til að ætla að áhugasamir hefðu gefið sig fram eins og raunin var þegar síðast var auglýst vegna rekstur gistiskýlis fyrir karla og SÁÁ gaf kost á samvinnu.
„Það er nöturlegt að fylgjast með því hvernig meirihluti Besta flokks og Samfylkingar leyfir sér að brjóta innkaupa- og siðareglur, þær tvær samþykktir borgarinnar sem helst eiga að verja íbúana gegn spillingu í stjórnsýslunni,“ segir í bókuninni.
Þetta hafi verið gert í kjölfar bókunar innkauparáðs sem lá fyrir fundinum en hún er samhljóða áliti borgarlögmanns sem lagt var fram á fundi borgarráðs 22. mars sl. sem svar við fyrirspurn borgarfulltrúa Vinstri grænna um málið.
Bókun innkauparáðs er svohljóðandi: „Ljóst er að innkaupareglum Reykjavíkurborgar var ekki fylgt við gerð samnings um rekstur gistiskýlisins í Þingholtsstræti. Innkauparáð telur það ámælisvert. Eins og máli þessu er háttað, telur Innkauparáð þó ekki ástæðu til íhlutunar. Innkauparáð leggur áherslu á að innkaupareglum Reykjavíkurborgar sé fylgt í hvívetna.“
Að mati fulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðislokks er það óyggjandi að innkaupareglur borgarinnar hafi verið brotnar þegar samið var við Samhjálp um 21% hækkun vegna reksturs Gistiskýlisins fyrir árið 2012. Í innkaupareglum segir að heimilt sé að veita undanþágu frá útboðsskyldu en í 13 gr. reglnanna segir þó að „skylt er að afla samþykkis innkauparáðs um fyrirhuguð innkaup á þjónustu birta skal auglýsingu á vefsvæði Reykjavíkurborgar um verkefnið og auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka það að sér. Leita skal umsagnar innkaupaskrifstofu um auglýsinguna áður en hún er birt.“
Fulltrúar VG og Sjálfstæðisflokks segja velferðarsvið hvorki hafa leitað samþykkis innkauparáðs né auglýsti eftir áhugasömum þrátt fyrir að hafa skömmu áður farið nákvæmlega eftir umræddum verkferlum í tilfelli Konukots, fengið heimild innkauparáðs og auglýst eftir áhugasömum.
„Á þeim fundi reyndi meirihlutinn að varpa sökinni á starfshóp um utangarðsfólk sem Heiða Helgudóttir leiddi en það stóðst ekki nánari skoðun. Hópurinn átti að fara yfir þjónustu við utangarðsfólk og að sjálfsögðu tilheyra bæði neyðarskýli borgarinnar, Gistiskýlið og Konukot, þeim málaflokki. Meirihlutinn bar því einnig við að réttlætanlegt hafi verið að brjóta innkaupareglur borgarinnar vegna þess að samningurinn við Samhjálp gilti í stuttan tíma. Samningurinn vegna Gistiskýlisins er í 11 mánuði en samningurinn vegna Konukots er í 12 mánuði. Þessi litli munur réttlætir ekki það að farið sé á svig við svo mikilvægar reglur,“ segir í bókuninni.