Viðmið um byggðamál uppfyllt af hálfu íslenskra stjórnvalda

Reuters

Opnunarviðmið sem sett var fyrir samningskaflann um byggðamál í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins hefur verið uppfyllt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Framkvæmdastjórn ESB óskaði á sínum tíma eftir því að Ísland legði fram ítarlega og tímasetta aðgerðaáætlun sem lýsti markmiðum varðandi framkvæmd byggðastefnunnar og stjórnsýsluframkvæmd, komi til aðildar Íslands að ESB. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Íslensk stjórnvöld og samningahópur um byggða- og sveitarstjórnarmál luku við gerð áætlunarinnar í mars s.l. og afhentu framkvæmdastjórn ESB til umfjöllunar. Niðurstaðan er sú að áætlunin er fullnægjandi lýsing á því með hvaða hætti Ísland hyggst haga undirbúningi sínum. Opnunarviðmiðið er því uppfyllt. Samningahópur um byggða- og sveitarstjórnarmál vinnur nú að endanlegri mótun samningsafstöðu sem ráðgert er að ljúka á næstunni, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert