Hlýjast sunnan- og vestanlands

Norðaustan- og austanátt verður á landinu í dag, yfirleitt 3-10 m/s, en allt að 15 m/s á annesjum. Bjart með köflum norðvestantil en annars skýjað að mestu og yfirleitt þurrt. Hiti 6 til 17 stig að deginum, hlýjast sunnan- og vestanlands.

Á höfuðborgarsvæðinu verður austlæg eða breytileg átt, 3-8 og skýjað með köflum. Hiti 8 til 14 stig, en svalara í nótt.

Yfir Norðursjó er víðáttumikil 992 mb lægð, en um 500 km suðsuðvestur af Vestmannaeyjum er 998 mb lægð sem þokast í V. Yfir Grænlandi og austur yfir Jan Mayen er 1026 mb hæð.

Á sunnudag, er útlit fyrir norðaustlæga átt, 3-8 m/s víðast hvar. Skýjað með köflum og stöku skúrir syðra, einkum síðdegis. Hiti 9 til 15 stig vestantil en 3 til 9 stig austantil.

Klukkan þrjú í nótt var austlæg átt, yfirleitt 3-8 m/s, en allt að 13 m/s á annesjum. Bjart með köflum norðvestantil en annars skýjað en úrkomulítið. Jarðvegsfok var í Vestur-Skaftafellssýslu og vestur með suðurströndinni. Hiti 1 til 11 stig, svalast á Brú en hlýjast á Lambavatni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert