Þingmenn á Alþingi í dag hafa kvartað undan því að fá ekki verið viðstaddir opnun nýrrar kerverksmiðju Alcoa Fjarðaáls við Reyðarfjörð vegna þess að þeir þurfi að sækja þingfund. Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra, er hins vegar á Reyðarfirði.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir að umræðu um frumvarp um veiðigjöld yrði frestað þar sem fjármálaráðherra gæti ekki hlusta á umræðuna. Fleiri þingmenn tóku undir þetta.
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagðist hafa áformað að vera viðstaddur opnun verksmiðjunnar, en hann er þingmaður Norðausturkjördæmis. Hann sagði að veiðigjöld væru skattur og því mjög eðlilegt að fjármálaráðherra væri viðstaddur umræðuna.
„Ég hefði viljað vera á Reyðarfirði. En um leið og ég fer fram á að fjármálaráðherra, sem fer með málefni skatta, sé viðstaddur þessa umræðu þá er mér meinað að fara í mitt kjördæmi og samfagna með íbúum þar,“ sagði Birkir Jón.
Álfheiður Ingadóttir, varaforseti Alþingis, sagði að fjármálaráðherra hefði hlustað á umræðuna í morgun og fram eftir degi.