Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra sagði í Alþingi í morgun að stjórnarandstaðan krefðist þess að ráða efnislegri niðurstöðu veiðigjaldamálsins. Hann minnti á að það væri þingmeirihluti fyrir málinu.
Umræða hófst í morgun á Alþingi um veiðigjöld. Nokkrir þingmenn bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu hvöttu til samstöðu í málinu og sögðu að í reynd bæri ekki mikið efnislega á milli manna.
Áður en formleg umræða byrjaði um veiðigjaldafrumvarpi hófst umræða um fundarstjórn forseta. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist vilja að ráðherrar og helstu stuðningsmenn fumvarpsin yrðu viðstaddir umræðuna.
Björgin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að í reynd væru allgóð samstaða um meginatriði þessa máls. Jón Gunnarsson og Árni Johnsen, þingmenn Sjálfstæðisflokks, tóku undir þetta og sögðu ekki ágreining um að sjávarútvegurinn greiddi veiðigjöld. Þeir gagnrýndu hins vegar hvernig stjórnvöld hefðu staðið að málum og eins þyrfti að gera frekari breytingar á frumvarpinu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði sagt að ekki stæði til að gefa meira eftir í þessu máli. Þetta benti ekki til þess að mikill sáttahugur væri hjá forsætisráðherra.
Fram kom í umræðunni að stjórnarandstæðingar vilja að það verði gert hlé á umræðunni og málinu yrði vísað aftur til nefndar. Björgvin sagði það enga lausn og réttar væri að ljúka annarri umræðu og taka málið fyrir í nefnd áður en þriðja umræðan færi fram.
„Síðan á mánudag höfum við reynt að gera stjórnarandstöðunni ýmis tilboð í þessum efnum. Það hefur komið fyrir ekkert,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon. „Stjórnarandstaðan hefur talað hér í 70-80 klukkustundir nú þegar við aðra umræðu, en er þetta þó frumvarp sem þarf að fá afgreiðslu. Það tengist forsendum fjárlaga yfirstandandi árs og ríkisfjármálaáætlun næstu ára. Það hefur ekki verið venjan að stjórnarandstaðan leggja stein í götu þess að t.d tekjuöflunarfrumvörp fjárlaga næðu fram að ganga. Þau eru afgreidd á ábyrgð meirihlutans og það er ekki verið að biðja neinn að bera pólitíska ábyrgð á því. Það er þingmeirihluti fyrir þessu máli, en vandinn virðist vera sá að minnihlutinn vill ráða efnislegri niðurstöðu þess.“
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins spurði forseta hversu lengi þingfundur ætti að standa í dag. Hann sagðist hafa ætlað sér að vera viðstaddur opnun nýrrar verksmiðju Fjarðaáls á Reyðarfirði síðar í dag. Forseti gaf engin svör um hvað fundurinn yrði langur.