Einelti á vinnustöðum er bæði algengara og alvarlegra en flestir gera sér í hugarlund. Það getur birst á margan hátt og fyrirfinnst í öllum starfsstéttum. Hér á landi hafa verið sett lög til að vernda fólk gegn ofbeldi af þessu tagi. Sérfræðingur í fyrirtækja- og vinnusálfræði segir dæmi um að fórnarlömb eineltis á vinnustöðum hafi orðið fyrir líkamlegum áverkum.
Einelti spyr hvorki um stöðu né stétt. Rúmlega fimmtug háskólamenntuð kona, með um þriggja áratuga farsælan starfsferil að baki, varð fyrir einelti á vinnustað. Það hafði þrifist þar lengi, án þess að nokkuð hefði verið að gert. Eineltið hefur haft margvísleg áhrif á líf hennar og hún segist sjá eftir að hafa sagt frá því í atvinnuviðtölum, því að það sé túlkað sem skortur á tryggð við vinnuveitandann.
„Ég missti vinnuna í hruninu,“ segir hún. „Fyrirtækið sem ég vann hjá varð gjaldþrota og lítil eftirspurn var þá eftir fólki í minni starfsgrein. Árum saman hafði ég skapað mér aukavinnu í kringum áhugamál mín og ákvað að skipta um starfsvettvang og gera þessa aukagetu að aðalstarfi. Þegar það tókst var ég himinlifandi og mætti til vinnu full eldmóðs og áhuga.”
Hún segir fyrstu vikurnar í nýju vinnunni hafa verið „ömurlegar”. Henni hafi ekki verið sagt til í starfinu og henni voru ekki fengin nein verkefni. „Ég reyndi að spyrja, biðja um verkefni og geta í eyðurnar en það var áhættusamt því mjög illa var brugðist við öllum frávikum frá venjubundinni rútínu á þessum vinnustað. Ef ég orðaði hlutina öðruvísi eða setti tölvupósta ekki upp á tiltekinn hátt var kvartað. Ég reyndi þá að taka frumkvæði og vinna verkefni sem ég vissi að ég hafði á valdi mínu. Því var heldur ekki vel tekið.“
Ýmsum ráðum beitt í eineltinu
Fljótlega eftir að konan hóf þarna störf var haldinn fundur allra starfsmanna, þar sem ræða átti það sem framundan væri. Fundurinn fór hins vegar í að yfirmaðurinn varði öllum tímanum í að finna að verkefni sem konan hafði unnið. Seinna átti hún eftir að sitja fundi þar sem eins var farið með aðra starfsmenn.
Hún segir yfirmanninn hafa beitt ýmsum ráðum til að fá starfsfólkið til að finnast það ómögulegt.
„Yfirmaður minn bað okkur undirmenn sína einnig reglulega að finna upplýsingar sem hann bráðvantaði. Okkur tókst hins vegar aldrei að gera nógu vel. Eitthvað vantaði upp á í hvert einasta skipti og hann hafði nýjar og nýjar spurningar í hvert sinn sem við komum með svör. Eitt lítið erindi sem hefði getað tekið eitt símtal og tíu mínútur af tíma starfsmanns var aldrei afgreitt í færri en þremur til fjórum símtölum og gat tekið frá hálftíma upp í tvo til þrjá tíma að afgreiða.“
„Yfirmaður minn fór yfir öll mín verkefni beinlínis í leit að einhverju til að setja út
á,“ segir konan. „Ég verð að játa að oft sauð á mér þegar kallað var í þriðja og fjórða skipti bara til að sýna mér eitthvert smáatriði sem fara mætti betur. Punktur hér, komma þar eða betra orðalag varð að stórmáli og ég var stöðugt að standa upp frá skrifborðinu mínu og ganga inn á skrifstofuna hans til að fá þau skilaboð.“
Hún segir að eitt sinn hafi yfirmaðurinn sent tölvupóst til allra starfsmanna fyrirtækisins til að segja þeim frá því að hún hefði gert mistök í tölvupóstsendingum til viðskiptavinar fyrirtækisins.
Blettur á flekklausum starfsferli
Konan vinnur ekki lengur á þessum stað, en starfslok hennar urðu með þeim hætti að hún svaraði yfirmanninum fullum hálsi og var í kjölfarið sagt upp störfum.
„Ég sé ekkert eftir vinnunni en mér fannst þessi málalok blettur á annars flekklausum ferli mínum og mér leið óskaplega illa. Í minni fjölskyldu er fólk ekki rekið úr vinnu, þvert á móti er eftir því sóst. Ég leitaði til sálfræðings sem er sérfræðingur í vinnustaðasálfræði og í ljós kom að ég þjáðist af alvarlegri áfallastreituröskun. Kvíðahnúturinn sem ég hafði verið með í maganum í hálft ár var lengi að leysast upp og stundum finn ég fyrir honum enn. Ég var líka farin að efast um eigin dómgreind.“
Eftir að konan var rekin úr starfi kvartaði hún til Vinnueftirlits ríkisins vegna eineltis á þessum tiltekna vinnustað. Í kjölfarið kvartaði annar fyrrverandi starfsmaður og sex aðrir fyrrverandi starfsmenn gáfu sig fram og kváðust tilbúnir að styðja framburð hinna tveggja. Ekki hefur enn fengist niðurstaða í málið en ráðgjafarfyrirtæki var fengið, en að sögn konunnar hafa eineltiskvartanir hennar og annarra ekki verið rannsakaðar. „Við höfum engin úrræði til að leita réttar okkar, því að lögin gera einfaldlega ekki ráð fyrir frekari úrræðum.“
Sér eftir að hafa sagt frá í starfsviðtali
Konan segist sjá eftir því að hafa skýrt frá því á ráðningarstofu að hún hafi orðið fyrir einelti. Hún segist viss um að það hafi neikvæð áhrif á starfsmöguleika hennar og að það að hún hafi sagt frá þessum atburðum sé túlkað sem lítil tryggð við vinnuveitendur.
„Það er hart að hægt er að eyðileggja orðspor manns á vinnumarkaði á þennan hátt, því enginn trúir því að samstarfsmaður þinn ákveði markvisst og kerfisbundið að brjóta þig niður og gera þér ókleift að blómstra í starfi. Ég sagði frá þessari reynslu minni í fyrsta atvinnuviðtalinu sem ég fór í eftir þetta og andrúmsloftið breyttist strax og ég fékk ekki vinnuna. Ég sagði ráðgjafa á ráðningarskrifstofu einnig frá því að ég hefði kvartað undan einelti og eftir það hef ég ekki fengið viðtal eða komið til greina í stöður sem auglýstar eru hjá þeim. Engu er líkara en það að leita réttar síns í eineltismálum sé túlkað sem skortur á tryggð við vinnuveitandann.“
Einelti er alls staðar
„Einelti fyrirfinnst í öllum störfum og á öllum stigum þjóðfélagsins. Það er alls staðar og takmarkast ekki við neinar einstakar starfsstéttir, því hvati þess að leggja aðra í einelti ræðst fyrst og fremst af persónu þess sem velur að beita sér svona fremur en starfi hans eða þjóðfélagsstöðu. Og slíkir einstaklingar eru úti um allt,“ segir Marteinn Steinar Jónsson, fyrirtækja- og vinnusálfræðingur, sem hefur sérhæft sig í einelti á vinnustöðum.
Hann segir að rannsóknir sýni að alvarlegt einelti sé að finna á 1-4% allra vinnustaða í Evrópu, á 8-10% vinnustaða fyrirfinnist einelti af og til og á 10-20% vinnustaða tíðkist neikvæð hegðun eða neikvætt viðmót, sem ekki falli undir skilgreiningar á einelti, en valdi engu að síður oft mikilli vanlíðan.
Hann segir að hættulegt geti reynst að láta samskiptavanda óáreittan og að taka ekki á vandamálum. „Þá geta þau magnast upp og þróast yfir í einelti.“
Niðurlæging, hunsun, háð og spott
Marteinn hefur komið að fjölmörgum eineltismálum á íslenskum vinnustöðum og segir þau jafn misjöfn og þau eru mörg. Hann segir einelti meðal annars geta birst í niðurlægingu, hunsun, að halda vitneskju frá viðkomandi, að hæða hann og spotta og reyna að taka fórnarlambið á taugum á ýmsan hátt. Sum málanna eru býsna alvarleg og hann segir dæmi um að fólki hafi jafnvel verið veittir líkamlegir áverkar.
„Ég veit um dæmi þar sem maður var lagður í einelti á vinnustað sínum í 17 ár. En hann tjáði sig ekki um vanlíðan sína fyrr en gerandinn hafði handleggsbrotið hann.“
Marteinn segir einelti hafa víðtæk áhrif á þá sem fyrir því verða. „Sumir hætta í vinnunni sinni út af því, oft vegna þess að það er ekkert gert í málunum. Stundum er ekki hlustað á fólk þegar það segir frá svona hlutum og sumir vinnustaðir loka augunum fyrir þessu. Þeim er skylt að vera með viðbragðsáætlun gegn einelti, þetta er vinnuverndarmál og fólk á rétt á því að líða vel á sínum vinnustað. Einelti er ekkert annað en ofbeldi og fáir vinnuveitendur myndu líklega sætta sig við það að fólk væri að berja hvað annað í vinnunni. En einelti er ekkert betra en það, jafnvel verra.“
Ekki alltaf einelti
Marteinn hefur gert úttektir á fjölmörgum vinnustöðum eftir að kvartanir hafa borist um einelti. Hann segir stundum snúið að vinna í málum af þessu tagi, en oft gangi vel að leysa vandann. Það sé til í dæminu að fólk telji sig hafa orðið fyrir einelti, en við nánari athugun komi í ljós að svo sé ekki, heldur sé um að ræða neikvæða félagslega hegðun, sem getur t.d. komið fram sem viðvarandi óbilgirni eða samskiptavandi. Til þess að meta hvort um er að ræða einelti eða aðra tegund hegðunar styðst hann við reglugerðir og lög um hollustuhætti og öryggi á vinnustað.
Gerendur stundum reknir úr starfi
„Þegar búið er að greina vandann eru teknar ákvarðanir um hvað það er sem þarf að gera. Ef þetta er einelti er gerandanum stundum veitt áminning og hann fær jafnvel tækifæri til að vinna í sínum málum. Það hefur hins vegar komið fyrir að fólk sé fært til eða því vikið úr starfi vegna þess að það hefur lagt vinnufélaga sína í einelti. Yfirleitt er reglan sú að sá sem leggur í einelti þarf að víkja frekar en þolandi eineltisins. Málin geta orðið svo alvarleg að ekki er lengur hægt að hafa báða aðila áfram á staðnum. Það er misjafnt hvernig staðið er að vinnslu eineltismála og það þarf auðvitað að fara eftir lögum og reglum. Ef hægt er að leita sátta, þá er það gert. En grundvallaratriðið er að uppræta eineltið algjörlega en hvernig best er að fara að, ræðst af þeim forsendum sem fyrir hendi eru, hverju sinni.“
Að sögn Marteins kemur það vinnuveitendum stundum á óvart að einelti sé í gangi ávinnustaðnum. Fólk geti verið tregt til að tilkynna einelti af ótta við að það komi niður á möguleikum þess í starfi og velvild í garð þess. „Það gerist oft,“ segir hann.
Enginn kynjamunur
Marteinn Steinar segir að rannsóknir hafi ekki sýnt fram á kynjamun að neinu leyti og að engar vísbendingar séu um að algengara sé að fullorðið fólk á tilteknu aldursskeiði leggi fólk í einelti, umfram fólk á öðrum aldri.
„Það þarf að hjálpa þeim sem lendir í þessu að byggja sig upp aftur. Fórnarlömbin eru oft með sjálfsásakanir. Þau taka þessu oft þannig að það sé eitthvað að þeim sjálfum og að þau beri einhverja ábyrgð á eineltinu. Þetta eru yfirleitt mjög hæfir einstaklingar sem eru samviskusamir og vinna vel, en aðrir sjá einhvern veikan blett sem þeir ráðast á. Það er sagt að sumir þeirra sem lenda í einelti umberi streitu og mótlæti betur en margir aðrir, vegna fyrri reynslu af ofríki og ofbeldi, og hafi myndað þol gegn því að aðrir fari illa með þá. Jafnan er þetta fólk sem vill ekki lenda í útistöðum og hikar við að berjast á móti.“
Ekki einhver ein tiltekin manngerð
Marteinn segir ástæður eineltis margvíslegar. „Það er ekki hægt að segja að einhver tiltekin manngerð leggi annað fólk í einelti, en rannsóknir hafa sýnt að þeir eiga þó sumt sameiginlegt. Sumir eru að sýna vald sitt, aðrir eru að refsa einhverjum sem þeir þola ekki,“ segir Marteinn.
„Þeir telja sig ósjaldan hafa mjög gott sjálfsmat og líta hátt á sig. En sjálfsmatið er í rauninni óstöðugt, því að ef þeir halda að einhver meti þá ekki eins og þeir telja sig eiga skilið, þá ráðast þeir áviðkomandi til að vernda sína sjálfsmynd. Yfirleitt er um að ræða slaka tilfinningagreind. En það bendir ýmislegt til þess að þeir sem vilja leggja aðra í einelti þjáist af vanmetakennd og hún getur verið mjög vel dulin.“