Efnahagsástandið á evrusvæðinu getur dregið úr lífskjörum á Íslandi en hætta er á því ef kaupmáttur minnkar í Evrópu að eftirspurn eftir hágæða íslenskum fiski minnki og að kreppan hafi áhrif á verð á áli. Þá getur minni kaupmáttur á evrusvæðinu dregið úr straumi ferðamanna frá Evrópu til Íslands að sögn Péturs H. Blöndal, alþingismanns.
„Auðvitað vona ég að það takist að bjarga Spáni en það getur haft mikil áhrif á Ísland bæði skyndilega í sumar og haust og til lengri tíma. Mér finnst menn ekki nægilega undir það búnir að skellur komi frá Evrópu því það þarf að huga að stöðu heimilanna og fyrirtækjanna ef illa fer,“ segir Pétur.
Þá bendir Pétur á að drög að nýju fiskveiðistjórnunarkerfi geri ekki ráð fyrir skyndilegum sveiflum á markaði.
„Ég hef verið að vara við þeim göllum sem eru í fiskveiðistjórnunarfrumvörpunum um veiðigjaldið eða öllu heldur skattinn því hann er fastur og tekinn eftir á og tekur því ekki mið af skyndilegum sveiflum.“