„Ríkið átti ekki mikið val“

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna.

„Í fyrsta lagi þá hefur náttúrlega fjármálaráðherra svarað fyrir og farið með samningana á milli ríkisins og Landsbankans um fjárhæðina,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, aðspurður út í fullyrðingar þingmanna stjórnarandstöðunnar þess efnis að SpKef-málið sé eintómt klúður.

Að sögn Steingríms verða menn að hafa í huga varðandi málið að öðru leyti að ríkið gaf út haustið 2008 yfirlýsingu um að allar innistæður í sparisjóðum og bönkum yrðu tryggðar og varðar.

„Í öllum tilvikum hefur síðan verið unnið í málum á grundvelli þess og það er vissulega því miður svo að þetta verður einn af stærri reikningunum sem lenda á ríkinu beint sem kostnaður við að tryggja innistæður allra Suðurnesjamanna og allra viðskiptavina Sparisjóðs Keflavíkur á Suðurnesjum, á Vestfjörðum, fyrir vestan og um norðvestanvert landið,“ segir Steingrímur og bætir við: „Ég geri ekki ráð fyrir því að það hafi hvarflað að neinum að innistæðueigendur þar yrðu meðhöndlaðir öðruvísi en aðrir landsmenn, þannig að ríkið átti ekki mikið val í þeim efnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert