Skákmaraþon hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur í hádeginu í dag, en keppnin er liður í uppskeruhátíð Skákakademíu Reykjavíkur sem stendur yfir fram eftir degi. Tilgangurinn maraþonsins er að safna áheitum í þágu æskulýðsstarfs í skák.
Samhliða maraþoninu munu stórmeistararnir Friðrik Ólafsson og Jóhann Hjartarson tefla fjöltefli, og ungstirnin Dagur Ragnarsson og Oliver Aron Jóhannesson tefla einvígi um gullið á Skólaskákmóti Íslands.
Skákakademían, sem stofnuð var 2008, stóð fyrir skákkennslu í 30 grunnskólum Reykjavíkur í vetur. Þá hefur akademían haldið mikinn fjölda viðburða og skákmóta, safnað fé í þágu góðra málefna, stutt við skákstarf meðal fólks með geðraskanir, og staðið fyrir margskonar nýbreytni í skáklífinu. Meginmarkmið Skákakademíunnar er að öll börn eigi þess kost að læra að tefla, enda sýna rannsóknir að skákkunnátta hefur jákvæð áhrif á jafnt námsárangur sem félagsfærni barna og ungmenna.
Klukkan 15 verður skákuppboð aldarinnar. Þar verða munir úr fórum nokkurra helstu meistara íslenskrar skáksögu, auk muna frá skákvinum og söfnurum.