Bretar að fara íslensku leiðina?

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands.
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Stjórnvöld í Bretlandi vinna nú að umbótum á breska bankakerfinu með það að markmiði að búa það undir nýja bankakrísu einkum vegna efnahagsvandræðanna á evrusvæðinu komi til hennar.

Eins og fram hefur komið hafa breskir ráðamenn þegar látið gera áætlanir meðal annars um aðgerðir til þess að vernda hagsmuni breskra þegna í evruríkjum komi til hruns á evrusvæðinu og til þess að tryggja að hægt verði að stemma stigu við mögulegri stóraukinni aðsókn fólks frá evrusvæðinu til Bretlands. Þá hefur Englandsbanki einnig hafið undirbúning í þeim efnum.

Fram kemur í frétt sem birtist á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í gærkvöldi að ýmislegt bendi til þess að breskir ráðamenn hafi nú vaxandi áhyggjur af þeim áhrifum sem aukin efnahagskreppa og verðbólga kunni að hafa á hagsmuni breskra heimila. Þannig hafi David Cameron, forsætisráðherra Breta, nú fyrirskipað ráðherrum sínum að senda sér yfirlit yfir allar ákvarðanir sem kunni að hafa áhrif á tekjur bresks almennings. Fram kemur í skilaboðunum til ráðherranna að nauðsynlegt sé að veita þeim málum hámarks athygli.

Forgangur fyrir innistæðueigendur

Þá segir ennfremur frá því í fréttinni að George Osborne, fjármálaráðherra Breta, muni í ræðu næstkomandi fimmtudag kynna umbætur á bankakerfi Bretlands sem miði að því sem fyrr segir að draga úr áhrifum mögulegrar nýrrar fjármálakrísu. Gert er ráð fyrir að umbæturnar hafi það að markmiði að tryggja að sparifjáreigendur fái sitt fé greitt út á undan hluthöfum banka og öðrum lánardrottnum komi til bankahruns (e. banking collapse). Þá er einnig búist við að ætlunin sé að veita nýrri eftirlitsstofnun á vegum Englandsbanka aukin völd til þess að stuðla að auknu öryggi banka.

Ljóst er að ef bresk stjórnvöld ákveða að fara þá leið að gera fé innistæðueigenda í breskum bönkum að forgangskröfum i bú þeirra fari þeir á hausinn er verið að fara sambærilega leið og íslensk stjórnvöld fóru í kjölfar bankahrunsins hér á landi haustið 2008 með setningu neyðarlaganna. Eins og kunnugt er voru þau lög einkum sett til þess að tryggja greiðslumiðlunarkerfið á Íslandi þar sem íslenska ríkið hafði ekki burði til þess að bjarga íslensku bönkunum.

Ekki kemur fram í frétt Daily Telegraph hvort bresk stjórnvöld hafi í hyggju að grípa til hliðstæðra aðgerða vegna þess að þau treysti sér ekki til þess að bjarga þarlendum bönkum en sé fréttin á rökum reist er ljóst að ekki er talið útilokað að til þess kunni að koma að í það minnsta einhverjir breskir bankar verði gjaldþrota og jafnvel að til bankahruns kunni að koma. Setning neyðarlaganna á Íslandi var á sínum tíma gagnrýnd harðlega víða um heim og þá ekki síst breytt röð kröfuhafa í bú banka en nú virðast bresk stjórnvöld vera að taka sér þá leið til fyrirmyndar.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert