„Nei, ekkert sem hefur komið neinni hreyfingu á hlutina,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður í Morgunblaðinu í dag hvort einhverjar viðræður séu á milli manna um þinglok.
Bjarni segir óhætt að segja að sjávarútvegsmálin og rammaáætlunin séu mestu ágreiningsmálin í þinginu. „Þau hafa kosið að hafa veiðigjöldin á dagskrá núna í viku og hafa ekki viljað ræða neitt annað. Það sýnist mér hafa þjónað afskaplega litlum tilgangi svona upp á það til að gera að ljúka þingstörfunum,“ segir Bjarni og bætir við: „Aðalvandinn er sá að þessi mál koma illa unnin, og seint, inn í þingið og þess vegna er þessi staða uppi núna, það er kominn 10. júní og stjórn fiskveiða er ennþá inni í nefnd.
„Auðvitað reyna menn að vera í sambandi og við stungum saman nefjum, þeir sem voru í þinghúsinu eftir að fundi lauk á laugardag,“ segir Steingrímur J. Sigfússon aðspurður í Morgunblaðinu í dag hvort menn ættu í formlegum viðræðum um þinglok.