Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg segja engin skynsamleg rök fyrir því að loka fyrir umferð ökutækja um Laugaveg. Nýleg könnun sýni yfirgnæfandi andstöðu við lokunina.
Stofnfundur samtakanna fór fram 6. júní sl. Í stjórn voru kjörin Bolli Kristinsson, Brynjólfur Björnsson, Gunnar Guðjónsson, Hildur Símonardóttir og Jón Sigurjónsson. Og í varastjórn Frank Ú. Michelsen og Hallgrímur F. Sveinsson.
Markmið og tilgangur hinna nýju Samtaka er að efla verslun við Laugaveginn í Reykjavík og vera málsvari eigenda rótgróinna verslana og eigenda verslunarhúsnæðis við götuna.
Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:
„Undanfarin misseri og ár hafa nokkrir kjörnir fulltrúar Reykvíkinga barist fyrir lokun Laugavegar fyrir bílaumferð. Þessum áróðri hefur verið haldið til streitu þó svo að engin skynsamleg rök hnígi að því að rétt sé að loka fyrir umferð ökutækja um götuna og þrátt fyrir að nýleg könnun meðal rekstraraðila hafi sýnt að andstaða við lokun er yfirgnæfandi.
Mjög hefur dregið úr verslun þá daga sem Laugavegi hefur verið lokað fyrir bíla-umferð. Flestir viðskiptavinir verslana á þessu svæði koma líka gagngert til að versla í tilteknum búðum. Ef aðgengi að verslunum er skert hefur það óhjákvæmilega í för með sér að stór hluti viðskiptavina leitar annað. Þá er lokun götunnar aðför að ferðafrelsi aldraðra, öryrkja og annarra þeirra sem eiga erfitt með gang.
Lokun götunnar felur í sér breytingu á formi hennar, en verslunareigendur, aðrir rekstraraðilar og fasteignaeigendur hafa lögmætar væntingar til þess að ákveðið form götunnar haldist. Ákvarðanir um lokun götunnar hafa ekki verið bornar undir alla hlutaðeigandi og samþykkis meirihluta rekstraraðila hefur ekki verið aflað í þau skipti sem henni hefur verið lokað.
Kaupmenn og fasteignaeigendur við Laugaveg mótmæla því harðlega öllum fyrir-ætlunum um lokun götunnar.
Borgaryfirvöld kynntu nýverið áform sín um stórhækkun bílastæðagjalda, en gert er ráð fyrir hækkunum um 67 til 88 prósent, auk þess sem til stendur að lengja mjög þann tíma sem skylt verður að greiða í gjaldmæla í miðborginni. Umræddar hækkanir á bíla-stæðagjöldum voru ákveðnar að því er virðist án samráðs við verslunareigendur og aðra hagsmunaaðila á svæðinu.
Á tímum almenns samdráttar í smásöluverslun væri rétt að borgaryfirvöld tækju höndum saman með kaupmönnum á svæðinu og stuðluðu að aukinni verslun. Liður í því gæti verið lækkun bílastæðagjalda og fjölgun stæða. Að sama skapi myndi það auðvelda aðgengi að verslunum að fella niður gjaldskyldu á svæðum nærri Laugavegi.
Verslun við aðalverslunargötur borga og bæja Bretlands hefur átt mjög undir högg að sækja síðustu ár og misseri. Þar í landi hefur mikið verið rætt um leiðir til að auðvelda fólki að komast á bílum sínum í miðborgirnar, meðal annars með lækkun bílastæða-gjalda og niðurfellingu gjaldskyldu í nágrenni aðalverslunargatna.
Nýstofnuð Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg setja stefnumál sín fram í tíu punktum:
Þá skora nýstofnuð Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda á Reykjavíkurborg að eiga samstarf við hin nýju Samtök í öllum stærri málum er varða Laugaveginn og nágrenni. Miðborg Reykjavíkur er viðkomustaður flestra ferðamanna er sækja landið heim og mikilvægt að hann sé landi og þjóð til sóma.
Kaupmönnum og fasteignaeigendum við Laugaveg er ljóst að róttækra aðgerða er þörf til að sporna við viðskiptaflótta úr götunni. Laugavegurinn getur aftur orðið miðstöð verslunar í Reykjavík, en til að svo megi verða þarf að grípa til róttækra aðgerða líkt og tilgreind eru í punktunum hér að ofan.
Án blómlegrar verslunar er enginn miðborg.“