Vegfarendur um Hvalfjarðargöng virðast ekki allir jafn kurteisir, ef marka má frétt á vefsvæði Spalar, sem rekur göngin. Þar segir að fyrir komi að viðskiptavinir ausi úr skálum reiði sinnar vegna þess að veggjald skuli innheimt og sýni bæði dónaskap og dólgshátt. Bent er á að kurteisi kosti ekkert.
Á vef Spalar segir að af og til komi það fyrir að viðskiptavinir láti starfsfólk í gjaldskýli heyra það svo um muni. „Við höfum nýlegt dæmi um fáheyrðan dónaskap í samskiptum af þessu tagi,“ segir í fréttinni og einnig að tilvikin varði oft veggjaldið á einn eða annan hátt.
Viðkomandi fullyrði þá að Spölur hafi þegar greitt allar skuldir sínar vegna framkvæmda við gangagerðina og haldi þó áfram að innheimta veggjald. „Þetta er auðvitað fráleitt og best að endurtaka það enn einu sinni, af gefnu tilefni, að miðað er við að skuldir greiðist upp síðla árs 2018 og í framhaldinu fái ríkið mannvirkið afhent skuldlaust. Þetta er allt í fullu samræmi við samninga ríkisins og Spalar sem Alþingi staðfesti.“
Þá segir að starfsmenn Spalar séu ráðnir til að veita viðskiptavinum góða þjónustu og það geri þeir. Eðlilegt sé að einhverjum mislíki eitthvað á stundum og hafi þeir kvörtun eða athugasemd fram að færa geri þeir það, að sjálfsögðu. „Sé þeim mikið niðri fyrir ættu þeir að hafa beint samband við ráðamenn félagsins frekar en að skeyta skapi sínu á starfsfólki í gjaldskýli eða á skrifstofu.“
Að endingu segir að dónaskapur og dólgsháttur eigi ekki heima í eðlilegum samskiptum manna og segi aðeins mest um þá sem temja sér slíka framkomu. Kurteisi sé eðlilegur samskiptamáti og kosti ekkert.