Varðskipið Þór lagði úr höfn í Reykjavík síðdegis í dag en samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands mun hann standa vaktina á íslenska hafsvæðinu næstu 18 daga. Að auki mun áhöfn varðskipsins nota ferðina til æfinga.
Sem stendur er Þór eina varðskipið sem vaktar íslenska hafsvæðið, en vert er þó að geta þess að eftirlits- og sjómælingabáturinn Baldur er við siglingar. Að auki heldur Landhelgisgæslan uppi eftirliti á Breiðafirði. Við það verkefni notast Gæslan við harðbotnabát en slíkir bátar henta einkar vel við verkefni sem þetta.
„Á Breiðafirði er nú mikið af bátum út af strandveiðunum þannig að þeir hafa verið að fylgjast vel með þeim,“ segir Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands, í samtali við mbl.is.
Varðskipið Týr er við leiguverkefni erlendis, en það tók að sér að draga skip í brotajárn. Ægir liggur bundinn við höfn í Reykjavík og fer brátt í slipp, en síðar í sumar, eða í júlímánuði, mun hann svo sinna landamæraeftirliti fyrir FRONTEX á Miðjarðarhafi.
Til stendur að Þór komi til Færeyja á ferð sinni og verður skipið til sýnis næstkomandi föstudag.