Vegrið sem sett var upp við Miklubraut fyrir fáeinum dögum virðist hafa orðið til þess að ekki fór verr þegar umferðarslys varð skammt frá rótum Ártúnsbrekku á föstudag. Þetta kemur fram í grein á vefsvæði Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Í grein FÍB segir að af ummerkjum á slysstað virðist sem jeppa sem var á leið til austurs eftir akreininni lengst til hægri, hafi skyndilega verið sveigt til vinstri og við það hafi ökumaður tapað stjórn á jeppanum, hann farið stjórnlaust yfir tvær akreinar og rekist loks á vegriðið sem aðgreinir akbrautirnar í austur- og vesturátt og oltið.
|
„Þetta umferðarslys er fyrst og fremst athyglisvert fyrir þá sök að vegriðið milli akbrautanna stöðvaði stjórnlausan jeppann og hindraði að hann æddi yfir á akbrautina til vesturs og inn í umferðina sem kemur niður Ártúnsbrekkuna á minnst 70-80 km hraða. Hefði það gerst hefðu afleiðingarnar orðið skelfilegar. Vegriðið sem um ræðir var sett upp á þessum stað fyrir fáum dögum síðan og segja má að það hafi þarna strax sannað gildi sitt með mjög afgerandi hætti.“
Þá segir að beinn kostnaður vegna slyssins skipti vafalaust nokkrum hundruð þúsunda króna sem séu smámunir hjá því sem hefði getað orðið ef ekkert vegrið hefði verið. „Hefði jeppinn náð að æða stjórnlaus inn í umferðina á móti og stórslys orðið, hefði það auðveldlega orðið margfalt, jafnvel þúsundfalt dýrara, fyrir utan líkamlegar og andlegar þjáningar og hörmungar sem það hefði kallað yfir þá sem í því hefðu lent, sem og fjölskyldur og aðstandendur og samfélagið allt.“