Atvinnuleysi í maí 5,6%

mbl.is/Ómar

Skráð atvinnuleysi í maí 2012 var 5,6%, en að meðaltali voru 9.826 atvinnulausir í maí og fækkaði atvinnulausum um 1.011 að meðaltali frá apríl eða um 0,9 prósentustig. Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 789 að meðaltali og konum um 222. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi í júní minnki milli mánaða í ár líkt og á síðasta ári og verði á bilinu 4,6%-5%

Atvinnulausum fækkaði um 595 á höfuðborgarsvæðinu en um 416 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 6,3% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 7,1% í fyrri mánuði. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 4,5% og minnkaði úr 5,4% í fyrri mánuði.

Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 9,4% og minnkaði úr 11% í fyrri mánuði. Minnst var atvinnuleysið á Vestfjörðum 2% og 2,1% á Norðurlandi vestra. Atvinnuleysið var 5,4% meðal karla og 5,9% meðal kvenna.

Alls voru 9.854 manns atvinnulausir í lok maí. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 8.734. Fækkun atvinnulausra í lok maímánaðar frá lokum apríl nam 1.136 en 844 færri karlar voru á skrá og 292 færri konur en í apríllok. Á landsbyggðinni fækkaði um 527 og um 609 á höfuðborgarsvæðinu. 

Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 6.256 og hefur fækkað um 525 frá lokum apríl og eru um 63% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í maí. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár var 3.962 í maílok og fækkaði um 367 frá lokum apríl. 

Alls voru 1.544 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok maí eða um 16% allra atvinnulausra. Í lok apríl voru 1.786 á þessum aldri atvinnulausir og hefur þeim fækkað um 242 milli mánaða. Í lok maí 2011 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 2.305 og fækkar því um 761 milli ára í þessum aldurshópi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert